Myndbandsdómgæslan kom mikið við sögu í óvæntum sigri WBA

Dagur Lárusson skrifar
Craig Pawson var allt í öllu í kvöld.
Craig Pawson var allt í öllu í kvöld. vísir/getty
West Brom gerði sér lítið fyrir og vann Liverpool á Anfield í fjórðu umferð enska bikarsins í dag en leikurinn endaði 2-3 og kom myndbandsdómgæslan mikið við sögu.

Það má með sanni segja að þessi leikur hafi verið ótrúlegur en mikið af vafaatriðum og mörkum litu dagsins ljós.

Það var Liverpool sem byrjaði leikinn betur en Roberto Firmino skoraði strax á 5. mínútu leiksins eftir varnarmistök frá Johnny Evans.

Það tók hinsvegar gestina ekki langan tíma að jafna metin heldur aðeins tvær mínútur en það var Jay Rodriguez sem skoraði markið eftir frábært spil West Brom. Eftir þetta mark byrjaði dramatíkin.

Á 11. mínútu skoraði Jay Rodriguez sitt annað mark eftir frábæra fyrirgjöf frá Kieran Gibbs og kom sínum mönnum í 2-1 forystu.

Myndbandsdómgæslan kom síðan við sögu nokkrum mínútum seinna þegar Craig Dawson skoraði eftir hornspyrnu. Craig Pawson, dómari leiksins, tók sér tíma til þess að spjalla við myndbandsdómarann og eftir dágóðan tíma ákvað hann að dæma markið af við litla hrifningu leikmanna West Brom.

Nokkrum mínútum seinna nýtti Craig Pawson sér aftur myndbandsdómgæsluna þegar Jake Livermore virtist rífa í treyju Salah í vítateig West Brom. Aftur tók Pawson sér tíma, lengur heldur en í fyrra skiptið, og dæmdi að lokum víti. Roberto Firmino steig á punktinn en brást bogalistin og klikkaði.

Allt virtist stefna í að West Brom færi með 2-1 forystu í leikhlé en allt kom fyrir ekki því í uppbótartíma skoraði Craig Dawson, aftur, nema í þetta skiptið var markið dæmt gott og gilt.

Liverpool var með yfirhöndina í seinni hálfleiknum og sótti án afláts og minnkaði Salah muninn á 78. mínútu. Nær komst Liverpool þó ekki og því er það West Brom sem fer áfram í fimmtu umferð bikarsins á meðan Liverpool situr eftir með sárt ennið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira