Fótbolti

Man Utd endaði Bandaríkjaferðina með sigri á Real Madrid

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sanchez og Darmian áttu þátt í báðum mörkum Man Utd í nótt.
Sanchez og Darmian áttu þátt í báðum mörkum Man Utd í nótt. vísir/getty
Þrír æfingaleikir evrópskra stórliða fóru fram í Bandaríkjunum í nótt þar sem Man Utd mætti Real Madrid í Miami á meðan Tottenham og AC Milan áttust við í Minnesota. Síðasti leikur næturinnar var svo viðureign Barcelona og Roma í Texas.

Man Utd 2-1 Real MadridBæði lið stilltu upp nokkuð sterkum byrjunarliðum þar sem David De Gea var til að mynda mættur í markið hjá Man Utd á meðan Real Madrid stillti upp öflugri sóknarlínu skipuðum þeim Gareth Bale, Karim Benzema og Vinicius Jr.

Man Utd byrjaði leikinn af miklum krafti og komst yfir með marki Alexis Sanchez á 18.mínútu. Ander Herrera tvöfaldaði forystuna níu mínútum síðar en Karim Benzema minnkaði muninn fyrir Evrópumeistarana á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Ekkert mark var skorað í síðari hálfleik og lauk leiknum með sigri Man Utd.

Þetta var síðasti leikur Man Utd í Bandaríkjunum en liðið vann fyrsta leikinn gegn AC Milan eftir vítaspyrnukeppni og steinlág svo 1-4 fyrir Liverpool. Real Madrid var hins vegar að leika sinn fyrsta leik í Bandaríkjunum og á eftir að spila gegn Juventus og Roma áður en þeir halda heim til Spánar.

Tottenham 1-0 AC MilanTottenham var sömuleiðis að leika sinn síðasta leik í Bandaríkjaferðinni og vann 1-0 sigur á ítalska stórveldinu AC Milan.

Eina mark leiksins var skorað í upphafi síðari hálfleiks og það gerði franski kantmaðurinn Georges N´Koudou. Bæði lið léku án sinna skærustu stjarna.

AC Milan mætir Barcelona í síðasta leik sínum í Bandaríkjaferðinni en Tottenham kveður Bandaríkin eftir 4-1 sigur á Roma, tap gegn Barcelona í vítaspyrnukeppni og 1-0 sigur á AC Milan.

Barcelona 2-4 RomaMesta fjörið var klárlega í síðasta leik næturinnar þar sem Barcelona og Roma mættust í áhugaverðum leik en þessi félög hafa átt í deilum undanfarna daga í kjölfar umdeildra kaupa Barcelona á Brasilíumanninnum Malcom.

Börsungar hikuðu ekki við að stilla Malcom upp í byrjunarliðinu og lék hann fyrsta klukkutímann í leiknum.

Að sjálfsögðu tókst honum að skora en hann kom Barcelona í 2-1 í upphafi síðari hálfleiks. Rómverjar svöruðu hins vegar með þremur mörkum og unnu að lokum 4-2 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×