Erlent

Draumurinn sem kviknaði á Íslandi endaði með ódæði ISIS-liða

Samúel Karl Ólason skrifar
Lauren Geoghegan og Jay Austin.
Lauren Geoghegan og Jay Austin. Vísir/SimplyCycling.com
Þegar hjónin Jay Austin og Lauren Geoghegan fóru hjólandi um Ísland árið 2016 ákváðu þau að hætta bæði í vinnum sínum og fara hjólandi um heiminn. Ástæðuna sögðu þau vera að „lífið væri stutt og heimurinn stór“. Þau vildu fá sem mest út úr heilsu sinni á meðan hún væri til staðar.

Eftir að hafa verið á ferðlagi í rúmt ár og hjólað um Afríku, Evrópu og hluta Asíu voru hjónin myrt af, er virðist, vígamönnum Íslamska ríkisins í Tadsíkistan. Þau voru 29 ára gömul.



Bíl var ekið á hóp sjö hjólreiðamanna og stukku svo menn úr bílnum og stungu fólkið þar sem það lá á götunni. Fjórir dóu og þar á meðal Jay og Lauren. Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en yfirvöld Tadsíkistan vilja þó ekki samþykkja það. Þeir segja útlægan stjórnmálaflokk hafa framkvæmt árásina. Forsvarsmenn flokksins segja það rangt og að yfirvöld ríkisins séu að reyna að nota morðin í pólitískum tilgangi.



Auk þeirra Jay og Lauren dóu þau Rene Wokke, frá Hollandi, og Markus Hummel, frá Sviss.

Í kjölfar árásarinnar birti ISIS myndband af fimm ungum mönnum lýsa yfir hollustu við Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga ISIS. Þá hétu þeir því að ráðast á vantrúaða.



Á bloggsíðu þeirra hjóna skrifuðu þau um reynslu sína og ferðalagið í heild. Þar má finna sögur um góðverk ókunnugra og erfiðar ferðaleiðir. Þar má sömuleiðis finna sögur um ókunnuga aðila sem reyndu að þvinga þau út af vegum eða hrinda þeim af hjólum sínum.

NPR bendir á færslu sem Jay skrifaði í Apríl:



„Þegar þú horfir á fréttir og lest blöðin ertu fenginn til að trúa því að heimurinn sé stór, ógnvænlegur staður. Fólki sé ekki treystandi. Fólk sé vont. Fólk sé illt. Fólk sé axarmorðingjar, skrímsli og verra.“

Jay sagðist þó ekki „kaupa það“. Hann sagði ljóst að illska væri til en hún væri sjaldgæf. Heilt yfir væru manneskjur góðar. Það væri stærsta lexía þeirra hjóna

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×