Fótbolti

Langþráð mark Arons fyrir Bremen

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron fagnar marki sínu í kvöld.
Aron fagnar marki sínu í kvöld. vísir/getty
Aron Jóhannsson skoraði langþráð mark fyrir Werder Bremen þegar liðið datt út í 8-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar gegn Bayer Leverkusen á útivelli í kvöld. Framlengja þurfti leikinn, en Leverkusen stóð uppi sem sigurvegari að henni lokinni, 4-2.

Þetta var fyrsta mark Arons í alvöru keppnisleik frá því í september 2016, en síðan þá hefur Aron glímt við erfið meiðsli. Einnig var hann úti í kuldanum hjá síðasta stjóra Bremen, en nú birtir til hjá pilti.

Bremen byrjaði af krafti og Max Kruse kom þeim yfir á fjórðu mínútu af vítapunktinum. Þremur mínútum síðar tvöfaldaði Aron svo forystuna með laglegri vippu þegar hann slapp einn í gegn.

Julian Brandt náði að minnka muninn fyrir Leverkusen fyrir hlé og Brandt var svo aftur á ferðinni á 55. mínútu þegar hann jafnaði metin.

Aron var skipt af velli í hálfleik, en framlengja þurfti leikinn. Þar réðust úrslitin, en Karim Bellarabi skoraði þriðja markið níu mínútum fyrir lok framlengarinnar. Kai Havertz gerði svo út um leikinn undir lok framlengarinanr og lokatölur 4-2. 

Leverkusen því komið í undanúrslit ásamt Bayern, en hinir tveir leikirnir í 8-liða úrslitunum fara fram annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×