Erlent

Háttsettur munkur ásakaður um að brjóta á nunnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Xuecheng er meðal annars ráðgjafi kínverskra stjórnmála.
Xuecheng er meðal annars ráðgjafi kínverskra stjórnmála. Vísir/Getty
Háttsettur kínverskur ábóti þvertekur fyrir að hafa áreitt nunnur kynferðislega þar í landi. Hann neitar að sama skapi fyrir ásakanir þess efnis að hann hafi fengið þær til að sænga hjá sér með því að „stjórna hugsunum“ þeirra.

Kínversk stjórnvöld hafa fengið í hendurnar skýrslu þar sem hin meintu brot Xuecheng eru rakin. Skýrsluna rituðu tveir munkar sem búið hafa í sama klaustri og ábótinn en aðrir forstöðumenn þess hafa sakað munkana um að hagræða sannleikanum.

Í skýrslunni kemur fram að Xuecheng hafi sent fjölda nunna klúr og ógnandi skilaboð þar sem hann krafðist þess að þær sænguðu hjá honum. Hið minnsta sex nunnur hafi fengið slík skilaboð og fjórar þeirra eru taldar hafa gefið undan.

Ábótinn er sagður hafa notað skilaboðin til að heilaþvo konurnar - kynlífið væri í raun hluti af trúarlegu uppeldi þeirra. Munkarnir segjast hafa fengið að sjá slík skilaboð frá einni nunnu, sem kvartaði undan framferði ábótans í lok síðasta árs.

Ásakanirnar á hendur Xuecheng eru sögð enn ein birtingarmynd MeToo-byltingarinnar í Kína. Xuecheng er háttskrifaður í landinu; hann fer fyrir samtökum búddista í Kína og er meðal ráðgjafa ríkisstjórnarinnar. Rúmlega milljón manns fylgjast með honum á samfélagsmiðlinum Weibo.

Í færslu á miðlinum skrifar klaustrið að það muni fara fram á rannsókn á málinu en ítrekaði að Xuecheng neitaði allri sök. Það bætti um betur og segir að ásakanirnar séu byggðar á fölsuðum gögnum sem settar séu fram til þess eins að sverta mannorð munksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×