Fótbolti

FIFA rannsakar ásakanir um kynferðislega misnotkun á afganska kvennalandsliðinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
FIFA og Sameinuðu þjóðirnar vinna að því að koma leikmönnum afganska landsliðsins í öruggt skjól. Myndin tengist fréttinni ekki beint
FIFA og Sameinuðu þjóðirnar vinna að því að koma leikmönnum afganska landsliðsins í öruggt skjól. Myndin tengist fréttinni ekki beint vísir/getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA rannsakar ásakanir þess efnis að leikmenn kvennalandsliðs Afganistan hafi sætt kynferðislegu og líkamelgu ofbeldi af hálfu karlkyns starfsmanna afganska knattspyrnusambandsins.

Guardian greindi frá þessu og sagði forseta sambandsins Keramuudin Karim vera á meðal þeirra sem sakaðir eru um að hafa brotið á leikmönnunum.

Ásakanirnar hafa orðið til þess að aðal styrktaraðili afganska sambandsins, danski íþróttavöruframleiðandinn Hummel, hefur slitið samstarfi sínu við sambandið.

Heimildarmenn Guardian eru meðal annars reyndir leikmenn landsliðsins og segja þær að ofbeldið hafi meðal annars átt sér stað í höfuðstöðvum sambandsins sem og í æfingaferð í Jórdaníu.

Neyddist til að flýja landKhalida Popal, fyrrum formaður deildarinnar sem sá um kvennaknattspyrnu innan afganska sambandsins og var þar áður fyrirliði landsliðsins, neyddist til þess að flýja land og leita sér hælis í Danmörku. Hún er meðal þeirra sem ræddi við Guardian ásamt leikmönnunum Shabnam Mobarez og Mina Ahmadi og landsliðsþjálfaranum Kelly Lindsey.

Popal sagðist hafa unnið sína eigin rannsókn á málinu og hafi heyrt of hótunum um líkamsárásir, kynferðislegar árásir og nauðgun og dauðahótanir.

„Það var mjög erfitt fyrir okkur sem bjuggum í landinu að tala um þetta því mennirnir sem um ræðir eru mjög hátt settir og voldugir. Ef leikmaður sagði eitthvað átti sú hin sama á hættu að vera drepin,“ sagði Popal.

Popal skipulagði þjálfunarbúðir fyrir landsliðið í Jórdaníu, Japan og Sameinuðu arabísku furstadæmunum og þar hittust leikmenn sem spiluðu í Afganistan og einnig leikmenn sem spiluðu erlendis.

Gengu á herbergin og sváfu hjá stúlkunum
Khalida Popal hélt tölu á jafnræðisráðstefnu FIFA árið 2017vísir/getty
Í fyrstu búðirnar, sem haldnar voru í Jórdaníu í febrúar, mættu tveir karlmenn með leikmönnunum sem komu frá Afganistan.

„Þeir sendu tvo menn sem voru með starfsheitin yfirmaður kvennaknattspyrnu og aðstoðarþjálfari. Þeir níddust á stelpunum og áreittu þær, sérstaklega þeim sem komu frá Afganistan því þeir vissu að þær gætu ekki sagt neitt,“ sagði Popal.

„Ég sagði þeim að hætta þessu og að ég myndi kvarta undan þeim, en þeir héldu áfram. Þessir menn gengu á herbergin hjá stelpunum og sváfu hjá þeim. Starfsmenn knattspyrnusambandsins sögðu við stelpurnar að þeir kæmu þeim í liðið og myndu borga þeim 100 pund á mánuði gegn því að þær segðu já við öllu því sem þær voru beðnar um að gera.“

„Þeir stjórnuðu þeim.“

Efir að stúlkurnar sögðu Popal frá þessu hringdi hún í forseta sambandsins og sagði honum að gera eitthvað í málinu. Hann sagðist ætla að taka alvarlega á málinu, þær ættu að hafa hljótt um þetta þar til liðið snéri aftur til Afganistan og þá yrði mönnunum refsað.

Landsliðsþjálfarinn bandaríski Lindsey sagði mennina tvo hafa fengið stöðuhækkun þegar heim var komið og færðir annað innan sambandsins.

Fingrafaraskanni á skrifstofunni og leyniherbergi með rúmiStuttu eftir þessar æfingabúðir voru níu leikmenn landsliðsins sem búa í Afganistan reknir úr liðinu. „Þetta voru nokkrir af okkar bestu leikmönnum, reknar úr liðinu því þær ætluðu að tala við fjölmiðla. Forsetinn kallaði þær, í einrúmi, lesbíur til þess að koma í veg fyrir að þær töluðu um misnotkunina í Jórdaníu. Hann lamdi eina af stelpunum með snókerkjuða, sagði hana lesbíu og rak hana úr sambandinu,“ sagði Popal.

„Ef þær sögðu frá þá myndi enginn trúa þeim því ásökun um samkynhneigð í Afganistan getur sett þig og fjölskyldu þína í mikla hættu.“

Eftir þetta atvik hóf Popal rannsókn sína á málinu og komst að því að forsetinn sjálfur hafi verið gerandinn í mörgum atvikanna.

Þá sé hann með svefnherbergi inn af skrifstofu sinni og skrifstofa hans er útbúin fingrafarsskynjara, svo enginn kemst inn né út nema með fingrafari forsetans.

Landsliðsþjálfarinn Lindsey reyndi að fara með málið til asíska knattspyrnusambandsins en kom að lokuðum dyrum, öll samskipti þyrftu að fara í gegnum forseta afganska sambandsins eða framkvæmdarstjóra. Talsmaður asíska sambandsins sagði við Guardian að málið væri í skoðun hjá þeim en engar kvartanir um kynferðisofbeldi hafi borist frá afgönskum leikmanni.

Sameinuðu þjóðirnar fengnar til aðstoðarÍ tilkynningu frá afganska knattspyrnusambandinu sagði að sambandið „hafni þessum fölsku ásökunum,“ og að „ofbeldi af þessum toga sé ekki liðið innan sambandsins.“

FIFA staðfesti að rannsókn á málinu stæði yfir og heimildarmaður innan alþjóðasambandsins staðfesti við Guardian að FIFA hefði leitað til Sameinuðu þjóðanna til hjálpar við að tryggja öryggi leikmannanna.

„FIFA hefur verið upplýst um ástandið í Afganistan og hefur unnið hörðum höndum að því að tryggja öryggi stelpnanna. Sambandið hefur unnið með þeim sem að málinu koma síðan í mars og safnað upplýsingum um málið sem síðan var komið til Sameinuðu þjóðanna. Slíkt er umfang málsins og óttinn um öryggi þeirra sem enn eru í landinu,“ er haft eftir heimildarmanninum innan FIFA.

Grein Guardian um málið má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×