Enski boltinn

De Gea vill meira en enska bikarinn: „Stuðningsmennirnir eiga skilið meira“

Anton Ingi Leifsson skrifar
De Gea hefur verið algjörlega magnaður á leiktíðinni.
De Gea hefur verið algjörlega magnaður á leiktíðinni. vísir/afp
David De Gea, markvörður Manchester United, segir að vinna bara enska bikarinn sé ekki nóg fyrir eins stórt félag og Manchester United er. Liðið þurfi að stefna að stærri og betri hlutum.

Í gær var De Gea valinn leikmaður ársins hjá United en þetta er fjórða árið sem markvörðurinn er valinn leikmaður ársins. Liðið er í öðru sætinu, langt á eftir meisturum Man. City og De Gea vill meira.

„Þetta hefur ekki verið nógu gott tímabil. Til þess að vera hreinskilinn höfum við verið að berjast við að halda öðru sætinu og vonandi náum við því en við höfum ekki náð okkar aðal markmiði sem var að vinna deildina,” sagði De Gea.

„Það er ástæðan fyrir því að við erum hér og það er það sem leikmennirnir vilja. Einnig viljum við gera okkur gildandi í Meistaradeildinni en við höfum ekki náð því markmiði.”

United mætir Chelsea í úrslitaleik enska bikarsins um miðjan mánuðinn. Spænski markvörðurinn vill auðvitað vinna bikarinn en segir að liðið þurfi að setja markið enn hærra.

„Auðvitað er enski bikarinn mikilvægur og góður bikar til að vinna og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná því en það er ekki nóg. Við erum Manchester United og við þurfum að stefna að stærri og betri hlutum.”

„Við þurfum að berjast til að vera með á næsta tímabili. Þetta er ekki bara Man. City sem munu vera að berjast á næstu leiktíð heldur verða þetta fimm til sex lið. Það kostar vinnu og við þurfum að vera í þessum pakka.”

„Við erum hérna til þess að reyna vinna bikara. Stuðningsmennirnir og fólkið í félaginu á skilið eitthvað betra og það er það sem við þurfum að gera; berjast til að vinna bikara,” sagði markvörðurinn magnaði að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×