Innlent

Komu í veg fyrir vatnsskort í Flatey

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Varðskipið Þór við Flatey í gær.
Varðskipið Þór við Flatey í gær. Landhelgisgæslan
Varðskipið Þór dældi í gær þrjátíu tonnum af ferskvatni yfir í Flatey á Breiðafirði vegna yfirvofandi vatnsskorts í eyjunni. Þá stökk áhöfn skipsins einnig til og sinnti slösuðum manni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Heimamenn í Flatey höfðu samband við Landhelgisgæsluna vegna yfirvofandi vatnsskorts í eyjunni. Áhöfn Þórs dældi því þrjátíu tonnum af ferskvatni yfir í eyjuna og gekk dælingin prýðilega, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Unnið var að dælingunni í 5 klukkustundir og 35 mínútur og voru allir tankar í eyjunni orðnir fleytifullir þegar áhöfn Þórs lauk störfum.

Dælt var í 5 klukkustundir og 35 mínútur.Landhelgisgæslan
Þetta var þó ekki eina verkefnið sem áhöfn varðskipsins sinnti í gær en um það leyti sem Þór var að athafna sig við Flatey barst ábending um að maður á eyjunni hefði slasast og þyrfti á aðhlynningu að halda.

Sjúkraflutningamenn úr áhöfn skipsins fóru í land á léttbáti til að athuga líðan mannsins. Skoðun þeirra leiddi í ljós að hann væri líklega rifbeinsbrotinn. Þyrla TF-SYN reyndist vera í gæsluflugi í grenndinni og sótti hún því þann slasaða og flaug með hann í Stykkishólm. Maðurinn var að því búnu fluttur á heilbrigðisstofnun í bænum til aðhlynningar.

Myndband af verkinu má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×