Erlent

Fox stendur með blaðamanni CNN

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Blaðamenn í Bandaríkjunum eru æfir vegna ákvörðunar yfirmanna samskiptamála hjá Hvíta húsinu að banna blaðamanni CNN að mæta á blaðamannafund.
Blaðamenn í Bandaríkjunum eru æfir vegna ákvörðunar yfirmanna samskiptamála hjá Hvíta húsinu að banna blaðamanni CNN að mæta á blaðamannafund. Vísir/AP
Kaitlan Collins, fréttamaður á CNN, var bannað að sitja blaðamannafund sem haldinn var í Rósa-garðinum við Hvítahúsið í gær vegna þess að yfirmenn samskiptamála voru ósáttir við spurningar Collins.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sátu fyrir svörum á fundinum.

Bandarískir blaðamenn eru upp til hópa afar ósáttir við framgöngu yfirmanna samskiptamála og telja að með ákvörðun þeirra hafi verið vegið gróflega að fjölmiðlafrelsi. Einn þeirra sem hefur stigið fram til varnar Collins er Bret Baier, fréttamaður á fréttastofu Fox.

Í stöðuuppfærslu á Twitter segir hann að fréttastofa Fox standi heilshugar með fréttastofu CNN í málinu.

Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Sarah Sanders, sendi fréttatilkynningu þar sem hún gerir grein fyrir ákvörðuninni. Hún segir að Collins hafi hrópað spurningar að forsetanum og neitað að yfirgefa salinn þegar hún hafi ítrekað verið beðin um það. Því hafi hún ekki verið velkomin í næsta fund.

Trump hefur fréttastofu Fox í hávegum og hefur margoft veitt þeim ítarleg viðtöl á sama tíma og hann hefur harðlega gagnrýnt CNN.

Tímabært að ókurteisi hafi afleiðingar

Ekki virðast þó allir vera á einu máli innan fréttastofu Fox því þáttastjórnandi Fox Business, Lou Dobbs, hæddist að blaðamanni CNN, Kaitlyn Collins, í þætti sínum þar sem hann gerði blaðamannafundinn umtalaða að umfjöllunarefni sínu. Sjá myndbrot.

Það liggur ekki fyrir hvort hann hafi vitað af stuðningsyfirlýsingu samstarfsfélaga síns hjá Fox þegar hann tók afstöðu með yfirmönnum samskiptamála hjá Hvíta húsinu. 

„Það eina sem ég hef að segja um þetta mál er að það er tími til kominn að hafi afleiðingar að hafa í frammi ókurteisi í Hvíta húsinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×