Fótbolti

Kanadíska undrið fer beint í aðallið Bayern

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Davies í leik með Vancouver Whitecaps
Davies í leik með Vancouver Whitecaps vísir/getty
Niko Kovac, stjóri Bayern Munchen, segir ekki koma til greina að hinn sautján ára gamli Alphonso Davies byrji feril sinn hjá þýska stórveldinu í varaliðinu.

Davies verður átján ára á föstudag en hann hefur þegar leikið 8 A-landsleiki fyrir Kanada. Bayern tryggði sér þjónustu undrabarnsins síðasta sumar og borgaði tæpar 20 milljónir evra fyrir kappann sem gerir hann að dýrasta leikmanni í sögu MLS þar sem hann lék með Vancouver Whitecaps.

Davies lék sinn fyrsta leik í MLS deildinni sumarið 2016, þá 15 ára gamall, og er hann næstyngsti leikmaður í sögu deildarinnar á eftir Freddy Adu. Davies skoraði átta mörk og lagði upp ellefu í 31 leik á nýafstaðinni leiktíð í MLS deildinni.

Whitecaps komst hins vegar ekki í úrslitakeppni MLS deildarinnar og mun Davies því fara til Þýskalands eftir landsliðsverkefni hjá Kanada í næsta mánuði. Hann verður þó ekki löglegur með Þýskalandsmeisturunum fyrr en um áramótin.

„Hann mun koma strax til okkar og fara beint í aðalliðið. Það er ástæðan fyrir að við keyptum hann. Þegar þú borgar svona mikinn pening ertu ekki að fara að setja leikmanninn í varaliðið,“ segir Kovac.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×