Fótbolti

„Jesús kristur, hvað varstu að selja okkur?“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ragnar Sigurðsson er einn besti miðvörður í sögu íslenska fótboltans.
Ragnar Sigurðsson er einn besti miðvörður í sögu íslenska fótboltans. vísir/getty
Ragnar Sigurðsson, landsliðsmiðvörður í fótbolta, er búinn að vera tólf ár í atvinnumennskunni en hann fór fyrst út frá uppeldisfélagi sínu Fylki til IFK Gautaborgar í Svíþjóð í október árið 2006.

Ragnar varð nánast um leið einn af bestu varnarmönnum sænsku úrvalsdeildarinnar en hann fagnaði sænska meistaratitlinum með Gautaborgarliðinu árið 2007. Stórlið í Evrópu voru lengi á höttunum eftir Árbæingnum sem á endanum fór til FC Kaupmannahafnar árið 2011.

Guðlaugur Tómasson, umboðsmaður, kom Ragnari frá Íslandi til Svíþjóðar en hann rifjar upp söguna af því þegar að miðvörðurinn var seldur til Svíþjóðar á Facebook-síðu sinni og umboðsskrifstofunnar.

„Þetta var ein eftirminnilegasta salan,“ segir Guðlaugur en Ragnar hafði áður farið á reynslu til FC Midtjylland í Danmörku þar sem að hann stóð sig svakalega vel. Danskafélagið ákvað samt að kaupa hann ekki.

„Þetta var á þeim tíma sem íslenskur fótbolti og íslenska deildin voru ekki á sama stað og í dag. Vinur minn Håkan Mild hjá IFK var ekki viss um Ragnar eftir að hafa séð hann en ég hamaðist í honum í tvo mánuði þar til að hann sagði já og fékk Ragnar til Gautaborgar,“ segir Guðlaugur og fljótlega áttaði Mild, sem var í bronsliði Svíþjóðar á HM 1994, að hann gerði rétt með að kaupa íslenska miðvörðinn.

„Tveimur mánuðum síðar hringdi hann í mig og sagði: „Jesús kristur, hvað varstu að selja okkur?“ Ragnar var sjálfur ekki viss um hvort hann vildi fara til Gautaborgar en ég stóð fastur á því að þetta væri rétta skrefið fyrir hann. Á endanum gekk þetta allt vel,“ segir Guðlaugur Tómasson í þessari upprifjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×