Fótbolti

Réðust á heimili landsliðskonu eftir að hún klikkaði á víti í landsleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gaëlle Enganamouit er hér lengst til hægri.
Gaëlle Enganamouit er hér lengst til hægri. Vísir/Getty
Gaëlle Enganamouit er í hópi besti knattspyrnukvenna Afríku en allir geta gert mistök. Mistök hennar inn á vellinum í landsleik með Kamerún höfðu hinsvegar mikil áhrif á líf hennar og hennar fjölskyldu.

Gaëlle Enganamouit klikkaði á víti í vítakeppni í undanúrslitum Afríkukeppni kvenna í knattspyrnu þar sem að Kamerún tapaði 4-2 á móti Nígeríu. Nígería komst þar með í úrslitaleikinn þar sem liðið mætir Suður-Afríku.





Joseph Ndoko, þjálfari Kamerún, sagði að samkvæmt ætingjum Gaelle Enganamouit hafi ósáttir „stuðningsmenn“ kamerúnska landsliðsins ráðist á hús Enganamouit með grjótkasti og síðan hótað því að þeir myndu koma aftur.  BBC segir frá.

Kamerún mætir Malí í dag í leiknum um þriðja sætið í Afríkukeppninni en sigurvegarinn vinnur sér einnig sæti í úrslitakeppni HM í Frakklandi á næsta ári.  

Joseph Ndoko fordæmdi árásina og sagði að hún gæti vissulega haft áhrif á liðið hans fyrir leikinn mikilvæga í dag. „Það er mjög óþjóðrækið og smánarlegt að einhverjir aðilar taki upp á því að ráðast á hús Gaelle af því að hún klikkaði á þessu víti,“ sagði Joseph Ndoko.





„Þetta er bara fótbolti og svona hlutir gerast. Þetta hefði líka getað fallið með okkur en ég vona að fólk muni frekar eftir öllum góðu stundunum og því að leikmennirnir mínir eru að berjast fyrir hróðri heillar þjóðar,“ sagði Ndoko.

„Það sem stelpurnar þurfa er stuðningur og hvatning en ekki svona svívirðilega hegðun,“ sagði Ndoko.

Gaëlle Enganamouit er fyrrum liðfélagi Glódísar Perlu Viggósdóttur hjá Eskilstuna en Gaëlle spilar nú með Avaldsnes í Noregi. Hún hefur spilað alla leiki Kamerún á mótinu og er búin að skora eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×