Enski boltinn

Cardiff með pálmann í höndunum en Reading í fallhættu fyrir lokaumferðina

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson. Vísir/Getty
Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff eru með pálmann í höndunum fyrir lokaumferðina í ensku B-deildinni eftir öruggan 0-2 sigur á Hull í dag þar sem Sean Morrison sá um markaskorun.

Aron Einar hóf leik en þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla strax á tíundu mínútu og er óttast um þátttöku landsliðsfyrirliðans á HM í Rússlandi sem hefst eftir einn og hálfan mánuð.

Cardiff fær Reading í heimsókn í lokaumferð deildarinnar og ljóst að sigur þar mun skila liðinu sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Með Reading leikur íslenski landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson og hann lék fyrstu 80 mínúturnar þegar liðið steinlág fyrir Ipswich á heimavelli, 0-4. Reading í 19.sæti deildarinnar og gæti fallið úr deildinni þar sem liðið er aðeins tveimur stigum frá fallsvæðinu fyrir lokaumferðina.

Birkir Bjarnason og félagar í Aston Villa eru á leiðinni í umspil en Birkir var ekki í leikmannahópi Aston Villa í dag þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Derby County. Þá var Hörður Björgvin Magnússon fjarri góðu gamni þegar Bristol City gerði markalaust jafntefli við Nottingham Forest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×