Erlent

Báru kennsl á lík eftir 64 ár

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Henri Le Masne fannst hátt upp í fjöllum.
Henri Le Masne fannst hátt upp í fjöllum. Vísir/Getty
Borin hafa verið kennsl á skíðakappa sem hvarf á Ítalíu fyrir rúmlega 60 árum síðan. Að sögn þarlendra miðla leystist málið eftir að sögur af manninum fóru á flug á samfélagsmiðlum. Málið má rekja til líkfundar í Aosta-héraðinu á Ítalíu árið 2005. Lík fannst hátt upp í fjöllunum og við hlið þess voru skíðabúnaður og gleraugu.

Rannsakendum var fyrirmunað að bera kennsl á líkið og leituðu því á náðir samfélagsmiðla í júní síðastliðnum. Þeir settu færslu á Facebook þar sem þeir greindu frá öllu því sem þeir höfðu komist að við rannsókn sína. Þeir töldu nokkuð ljóst að um væri að ræða mann í kringum þrítugt, hann hafi verið um 175 sentímetrar á hæð og nokkuð efnaður.

Fjallað var um færsluna í fjölmörgum evrópskum fjölmiðlum, til að mynda í Frakklandi, þar sem kona að nafni Emma Nassem kveikti á perunni. Hún velti fyrir sér hvort að um gæti verið að ræða frænda hennar sem ekkert hafði spurst til síðan að hann fór í skíðaferð nærri Matterhorn árið 1954. Talið var að fændi hennar, Henri Le Masne, hefði farist í fárviðri sem skall á skömmu eftir að hann hélt upp í brekkurnar.

Hún setti sig í samband við rannsakendahópinn - rétt eins og bróðir skíðakappans, hinn 94 ára gamli Roger Le Masne, sem sendi tölvupóst þar sem hann lýsti bróður sínum.

„Ég er bróðir Henri Le Masne... sem er líklega skíðakappinn sem hvarf fyrir 64 árum. Hann var piparsveinn og frekar sjálfstæður. Hann starfaði í fjármálaráðuneytinu í París,“ skrifaði bróðirinn.

Haft er eftir ítölsku lögreglunni á vef breska ríkisútvarpsins að fjölskylda mannsins hafi sent embættinu mynd af Henri Le Masne, myndina sem sjá má hér að ofan. Á myndinni er maðurinn með gleraugun sem fundust við hlið líksins. Lífsýnarannsókn staðfesti að lokum grun fjölskyldunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×