Enski boltinn

Özil hlær að gagnrýnendum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mesut Özil
Mesut Özil vísir/getty
Mesut Özil átti frábæran leik fyrir Arsenal síðastliðinn mánudag þegar hann var allt í öllu í góðum 3-1 sigri liðsins á Leicester.

Þrátt fyrir það voru ekki allir heillaðir því Graeme Souness, fyrrum leikmaður og þjálfari Liverpool og nú sjónvarpsmaður hjá Sky Sports segir að ekki sé hægt að tala um Özil sem leikmann sem breytir leikjum vegna þess að hann hverfi of oft í stærri leikjum.

Özil hefur oft verið mikið á milli tannanna á knattspyrnuáhugamönnum og er raunar frekar umdeildur knattspyrnumaður. Hann segir að svoleiðis hafi það alltaf verið og það truflar ekki kappann.

„Ég hlæ bara að þessu. Ég er ekki einn af yngri leikmönnunum og ég byrjaði að spila sem atvinnumaður þegar ég var 16 eða 17 ára og þetta hefur alltaf verið svona. Annað hvort líkar fólki við mig eða ekki,“ segir Özil sem kveðst ekki hlusta á umræðuna í fjölmiðlum.

„Ég hlusta ekki á þetta fólk. Ég hlusta bara á þjálfarann og mitt fólk sem getur sagt hlutina beint fyrir framan andlitið á mér. Þannig að, að sjálfsögðu, ef ég spila illa þá veit ég það jafn vel og þegar ég spila vel.“

„Það mikilvægasta er að þjálfarinn getur hjálpað mér. Ef ég geri mistök segir hann það við mig, við getum talað saman og þannig get ég bætt mig í framtíðinni.“

„En þegar fólk er bara að segja slæma hluti um mig til að komast að í blaðinu þá veit ég það og mér er alveg sama um það fólk,“ segir Özil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×