Enski boltinn

Stjóri Arons talaði um verðmiðann á Gylfa eftir leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron eltir Gylfa í gær.
Aron eltir Gylfa í gær. vísir/getty
„Mér fannst þetta ekki slæmur leikur en það voru einstaklingsmistök og svo kemur leikmaður sem kostar 50 milljónir punda og refsar okkur.“

Þetta voru fyrstu viðbrögð Neil Warnock, stjóra Cardiff, eftir að Cardiff tapaði 3-0 fyrir Everton á heimavelli í gærkvöldi. 50 milljóna punda maðurinn sem hann talar um er Gylfi Sigurðsson.

Gylfi skoraði nefnilega tvö mörk Everton í sigrinum í gær en hann kom Everton í 2-0 með mörkum á 41. og 66. mínútu. Dominic Calvert-Lewin gerði svo þriðja markið í uppbótartíma leiksins.

„Ef þú gerir mistök verður þér refsað. Ég vil ekki nefna nein nöfn en þú verður að fylgja manninum þínum og þeir gerðu það ekki í fyrsta markinu,“ en Gylfi skoraði fyrsta markið eftir fyrirgjöf.

Cardiff er í mikilli fallbaráttu og það eru tíu leikir eftir. Warnock segir að Cardiff muni ekki fara niður án þess að leggja líf sitt að veði.

„Við munum ekki fara niður án þess að berjast. Ég veit hvernig liðið verður í næsta leik og við eigum enn möguleika. Það er frábært að spila gegn Wolves. Ég held að við getum farið þangað og gefið þeim góðan leik því það er mikill karakter í liðinu. Við gefumst ekki upp.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×