Fótbolti

Úkraínskt stórlið áhugasamt um Árna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Árni og umboðsmaður hans.
Árni og umboðsmaður hans. mynd/cesare
Árni Vilhjálmsson er að gera það gott í Úkraínu en góð frammistaða hans á láni hjá Chornomorets Odesa hefur vakið mikla athygli.

433.is greinir frá því í gær að stórliðið Dynamo Kiev sé að fylgjast með Árna en miðillinn hefur þetta eftir úkraínskum miðli þar sem Cesare Marchetti, umboðsmaður Árna, var í viðtali.

Chornomorets á þó ekki Árna því hann er á láni frá pólska B-deildarfélaginu Termalica Nieciecza en hann var í einungis nokkrar vikur þar áður en hann gekk í raðir Chornomorets á láni.

Þar hefur hann algörlega farið á kostum og skorað sjö mörk í þeim tólf leikjum sem hann hefur spilað þar í landi en liðið er í umspili um fall.

„Ég tel að Chernomorets eigi ekki efni á því að kaupa hann og leikmaðurinn vill fara í stærri deild,“ sagði umboðsmaður Árna.

„Það er til dæmis Dynamo Kiev sem fylgist með honum og er áhugasamt. Það eru önnur lið bæði í Úkraínu og erlendis.“

Dynamo Kiev endaði í öðru sæti úkraínsku úrvalsdeildarinnar og fer í umspil um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×