Fótbolti

Rooney handtekinn í síðasta mánuði: Drukkinn með óspektir á almannafæri

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rooney á formúlu E þann 15. desember. Daginn eftir var hann handtekinn.
Rooney á formúlu E þann 15. desember. Daginn eftir var hann handtekinn. vísir/getty
Wayne Rooney, leikmaður DC United í MLS-deildinni, var handtekinn í Bandaríkjunum í síðasta mánuði en bandarískir fjölmiðlar greina frá þessu í kvöld.

Rooney er sagður hafa verið handtekinn eftir að hafa verið ölvaður á almannafæri og verið blótandi út í eitt. ABC7 fréttastofan segir að honum hafi verið stungið í steininn vegna þess.

Talið er að Rooney hafi verið handtekinn á flugvellinum í Washington þann 16. desember en degi áður hafði hann verið á formúlu E keppninni í Sádi Arabíu.

Ekki er vitað hversu lengi Rooney á að hafa setið inni en hann var í það minnsta mættur að sjá Manchester United spilar gegn Huddersfield þann 26. desember.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Rooney kemur sér í vandræði vegna drykkju en hann missti prófið árið 2017 er hann keyrði undir áhrifum áfengis. Einnig var hann skyldugur til að sinna hundrað tímum í samfélagsvinnu.

Rooney er sagður hafa greitt væna sekt fyrir óspektirnar en hann átti væntanlega fyrir henni eftir að hafa þénað rúmlega 20 milljónir punda á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×