Enski boltinn

Skýringin á frammistöðu Gylfa og félaga: Voru of stressaðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson sýnir hér pirring sinn í leiknum í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson sýnir hér pirring sinn í leiknum í gær. Vísir/Getty
Everton byrjaði nýja árið ekki vel og liðið fékk á sig mikla gagnrýni eftir frammistöðuna í tapi á móti Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Spilamennskan var stórfurðuleg oft á tíðum þar sem leikurinn einkenndist af misheppnuðum sendingum og slökum skotum.

Gylfi Þór Sigurðsson var með fyrirliðabandið hjá Everton og spilaði allan leikinn.  

Marco Silva, knattspyrnusrtjóri Everton, var beðinn um skýringu í viðtölum eftir leikinn sem Leicester City vann 1-0 á marki frá Jamie Vardy.

„Þetta var skrítið síðdegi fyrir okkur. Úrslitin eru vonbrigði og þetta var ekki góð frammistaða,“ sagði Marco Silva.





Honum fannst leikmennirnir sýnir vera „of stressaðir“ og „alltof óþreyjufullir“ í leik sínum og því fór sem fór.

„Við vildum gleðja stuðningsmenn okkar en náðum því ekki. Meira að segja einfaldar tveggja metra sendingar misfórust hjá okkur. Þegar það gerist er ómögulegt að búa til góð marktækifæri til að skora,“ sagði Silva.

„Við sköpuðum ekki mikið í fyrri hálfleiknum. Í hvert skipti sem við unnum boltann í góðri stöðu þá klúðruðum við því. Fullt af mistökum og auðveldar sendingar misheppnuðust,“ sagði Silva.

Everton hefur tapað tveimur síðustu leikjum sínum 1-0 og þá hefur liðið aðeins náð í einn sigur í síðustu átta deildarleikjum eða úr öllum leikjum sínum í desember til og með leiksins á nýársdag.

Everton er fyrir vikið dottið niður í tíunda sæti og gæti endað enn neðar eftir leiki kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×