Fótbolti

Katar komið í úrslitaleik Asíukeppninnar í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Almoez Ali  fagnar áttunda marki sínu í keppninni.
Almoez Ali fagnar áttunda marki sínu í keppninni. Getty/Zhizhao Wu
Katar og Japan spila til úrslita í Asíukeppninni í fótbolta en þetta varð ljóst í dag þegar Katar hélt ótrúlegri sigurgöngu sinni áfram á mótinu.

Katarbúar halda heimsmeistarakeppnina árið 2022 en hafa ekki verið til stórræða í fótboltanum hingað til. Landslið Katar er aftur á móti á mjög góðri leið ef marka má gengi þess meðal bestu knattspyrnuþjóða Asíu.

Katar vann 4-0 sigur á heimamönnum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í seinni undanúrslitaleiknum í dag en áður hafði Japan unnið 3-0 sigur á Íran í hinum undanúrslitaleiknum.





Katar hefur unnið sex fyrstu leiki sína í keppninni en fyrir þessa keppni hafði landslið Katar aðeins unnið 10 af 38 leikjum sínum í lokaúrslitum Asíukeppninnar. Besti árangur landsliðsins fyrir 2019 var fimmta sæti.

Katar hefur unnið þessa sex leiki sína í keppninni með markatölunni 16-0 og hefur liðið því enn ekki fengið á sig mark í mótinu.

Katar vann 1-0 sigur á Suður-Kóreu í átta liða úrslitunum og 1-0 sigur á Írak í sextán liða úrslitunum. Japan sló út Sádí Aarbíu og Víetnam á leið sinni í undanúrslitin.

Hinn 22 ára gamli Almoez Ali hefur verið stjarna mótsins en hann spilar fyrir Katar þrátt fyrir að vera fæddur í Súdan. Hann fluttist til Katar þegar hann var barn.

Almoez Ali skoraði annað mark Katar í dag og er því kominn með átta mörk í keppninni sem þýðir að hann hefur jafnað markamet Ali Daei í einni Asíukeppni.  Ali Daei skoraði átta mörk fyrir Íran árið 1996.

Almoez Ali kom Katar í 2-0 á 37. mínútu en Boualem Khoukhi hafði skorað fyrsta markið á 22. mínútu. Fyrirliðinn Hassan Al-Haydos innsiglaði síðan sigurinn með marki á 80. mínútu áður en Hamid Ismail skoraði síðasta markið í uppbótartíma.





Almoez Ali er með fjögurra marka forskot í baráttunni um gullskóinn en fjögur af mörkum hans komu í 6-0 sigri á Norður-Kóreu í riðlakeppninni.

Akram Afif lagði upp þrjú mörk fyrir Katar í dag og hefur gefið alls níu stoðsendingar á mótinu. Akram Afif er 22 ára gamall eins og Almoez Ali.

Katar mun síðan taka þátt í Suðurameríkukeppninni í sumar og þar fáum við enn frekar sönnun á styrkleika liðsins nú þegar styttist í því að Katar verður gestgjafi á HM í knattspyrnu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×