Fótbolti

Sú besta í heimi bauð Buffon í brúðkaupið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ada Hegerberg fagnar verðlaunum sínum við hlið Luka Modric og Kylian Mbappe.
Ada Hegerberg fagnar verðlaunum sínum við hlið Luka Modric og Kylian Mbappe. Getty/Aurelien Meunier
Norska knattspyrnukonan Ada Hegerberg var í lok síðasta árs kosinn besta knattspyrnukona heims og var hún þá sú fyrsta sem fær Gullknöttinn sem eru verðlaun sem aðeins karlarnir hafa fengið hingað til.

Það er mikið í gangi hjá Ödu Hegerberg þessa dagana því hún er líka að skipuleggja brúðkaupið sitt.

Ada Hegerberg er trúlofuð norska knattspyrnumanninum Thomas Rogne sem spilar sem atvinnumaður hjá pólska liðinu Lech Poznan.

Hegerberg spilar sjálf með frönsku Evrópumeisturunum í Olympique Lyonnais og hefur gert það frá árinu 2014 en Ada er nú 23 ára gömul.

Ada Hegerberg hitti ítalska markvörðinn Gianluigi Buffon í gær en Buffon hélt þá upp á 41 árs afmælisdaginn sinn.

Ada birti mynd af þeim saman inn á Instagram síðu sinni og sagði þar einnig frá því að hún hafi ekki staðist mátið og því boðið Buffon í brúðkaupið sitt.

„Ég óskaði sannri hetju til hamingju með daginn. Hann hafði mikil áhrif á mig allan minn uppvöxt enda þvílíkur herramaður og frábær leikmaður en síðast en ekki síst góð persóna. Ég fór kannski aðeins yfir strikið og bauð honum í brúðkaupið mitt,“ skrifaði Ada Hegerberg á Instagram eins og sjá má hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×