Fótbolti

Tvö sett af bræðrum sem spila með tveimur félagsliðum og fjórum landsliðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jérome og Kevin-Prince Boateng í sjónvarpsviðtali eftir einn af innbyrðisleikjum sínum á ferlinum. Þeir hafa mæst bæði með félagsliðum og landsliðum.
Jérome og Kevin-Prince Boateng í sjónvarpsviðtali eftir einn af innbyrðisleikjum sínum á ferlinum. Þeir hafa mæst bæði með félagsliðum og landsliðum. Getty/Sascha Steinbach
Með stórliðum Barcelona og Bayern München spila nú bræður sem eru allir í mjög sérstakri stöðu því þeir spila ekki fyrir sama landsliðið.

Þetta varð ljóst eftir að Barcelona samdi við Kevin-Prince Boateng og fékk hann á láni frá ítalska félaginu Sassuolo.

Kevin-Prince Boateng er 31 árs gamall og eldri bróðir Jérome Boateng sem spilar með Bayern München í Þýskalandi. Jérome er þrítugur.

Með Bayern München spilar einmitt líka Thiago Alcantara sem er 27 ára gamall og er eldri bróðir Rafinha sem spilar með Barcelona. Rafinha er 25 ára gamall.

Þessir fjórir spila síðan með fjórum mismunandi landsliðum og það er þá sem málið fer fyrst að flækjast. ESPN vakti athygli á þessu.





Thiago Alcantara er spænskur landsliðsmaður og hefur spilað 31 A-landsleik fyrir Spán frá árinu 2011. Yngri bróðir hans Rafinha spilar aftur á móti með brasilíska landsliðinu þar sem hann er með 1 mark í 2 landsleikjum. Faðir þeirra er Mazinho, sem varð heimsmeistari með Brasilíu á HM í Bandaríkjunum árið 1994.

Jérome Boateng er þýskur landsliðsmaður og hefur hann spilað 76 A-landsleiki fyrir Þýskaland frá árinu 2009. Eldri bróðir hans, Kevin-Prince Boateng, er aftur á móti landsliðsmaður Gana og hefur spilað 15 A-landsleiki fyrir Gana.

Þeir Jérome og Kevin-Prince eru reyndar hálfbræður þótt að það sé aðeins eitt ár á milli þeirra. Mæður þeirra beggja eru samt þýskar en faðir þeirra er Ganverji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×