Enski boltinn

Pochettino reynir að sannfæra Rabiot um að koma til Tottenham

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Adrien Rabiot
Adrien Rabiot getty/Srdjan Stevanovic
Tottenham hefur blandað sér í baráttuna um franska miðjumanninn Adrien Rabiot og samkvæmt heimildum SkySports hefur Lundúnarliðið lagt fram 18 milljón punda tilboð í kappann.

Rabiot er að renna út af samningi hjá PSG næsta sumar og hefur verið eftirsóttur af nokkrum af stærstu félögum heims, þar á meðal Barcelona en kaup spænska risans á hollenska miðjumanninum Frenkie De Jong gætu þýtt það að Rabiot sé ekki lengur á óskalista Börsunga.

Þessi 23 ára gamli miðjumaður ku ekki hafa verið mjög spenntur fyrir áhuga Tottenham fyrst um sinn en hann hefur einnig verið orðaður við Liverpool, AC Milan og Juventus.

PSG er tilbúið að selja kappann frekar en að missa hann fyrir ekkert næsta sumar en samkvæmt fréttum frá Englandi hefur Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, fengið leyfi til að ræða við Rabiot.

Þá birti Serge Aurier, hægri bakvörður Tottenham og fyrrum samherji Rabiot hjá PSG, mynd á Instagram reikningi sínum þar sem hann virðist vera að þrýsta á Rabiot að koma til Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×