Enski boltinn

Maðurinn sem Solskjær leyfði að æfa með Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giuseppe Rossi á æfingu með Manchester United á dögunum.
Giuseppe Rossi á æfingu með Manchester United á dögunum. Getty/Matthew Peters
Giuseppe Rossi fær að æfa með liði Manchester United þessa dagana þrátt fyrir að vera ekki leikmaður félagsins.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, gerði þessum 31 árs gamal Ítala mikinn greiða með því að leyfa honum að æfa með United liðinu á síðustu vikum.

Giuseppe Rossi er hluti af Manchester United fjölskyldunni eftir að byrjað feril sinn hjá félaginu á árunum 2004 til 2007. Þá var Ole Gunnar sjálfur einmitt leikmaður United.





Giuseppe Rossi fékk ekki aðeins tækifæri til að koma sér í betri form á krefjandi æfingum Manchester United heldur var vera hans þar góð auglýsing nú þegar hann leitar sér að liði.

Giuseppe Rossi var í viðtali hjá Sky Sports þar sem hann segir óskastöðu sína vera að finna lið í Englandi.

„Ég er mjög auðmjúkur og þakklátur fyrir þetta tækifæri. Þetta var mikill vinargreiði,“ sagði Giuseppe Rossi við Sky Sports.

„Þetta snýst svolítið um að finna brosið sitt aftur og ánægjuna,“ sagði Rossi.

„Þetta hafa verið nokkur erfið ár vegna meiðslanna og þau hafa tekið mikið frá mér. Ég hef samt alltaf náð því að koma sterkari til baka,“ sagði Rossi.

Rossi spilaði síðast með liði Genoa á Ítalíu en hann er að reyna koma til baka eftir enn eina hnéaðgerðina á sínum ferli.

Bestu árin hans voru hjá Villarreal og Fiorentina en hjá báðum félögum varð hann fyrir því að meiðast illa á hné. Hann skoraði 7 mörk í 30 landsleikjum fyrir Ítalíu á árunum 2008 til 2014.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×