Áttundi sigur Solskjær kom í bikarsigri gegn Arsenal

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pogba hefur verið sjóðheitur síðan Solskjær tók við liðinu.
Pogba hefur verið sjóðheitur síðan Solskjær tók við liðinu. vísir/getty
Manchester United er komið í 16-liða úrslit enska bikarsins eftir 3-1 sigur á Arsenal á útivelli í dag. Sigurinn var áttundi sigurinn í röð undir stjórn Ole Gunnar Solskjær.

United gerði fimm breytingar á liði sínu frá sigrinum gegn Brighton en meðal þeirra sem komu inn í liðið voru fyrrum Arsenal-maðurinn Alexis Sanchez og Romelu Lukaku.

Það voru einmitt þeir sem bjuggu til fyrsta markið á 31. mínútu. Lukaku gaf frábæra sendingu inn á Sanchez sem lék á Petr Cech og kom svo boltanum í netið. Stuðningsmenn Arsenal höfðu baulað á Sanchez allan leikinn en hann þakkaði fyrir sig með marki.

Það liðu tæplega 150 sekúndur áður en staðan var orðinn 2-0. Lukaku var þá aftur á ferðinni en hann gaf góða sendingu á Jesse Lingard sem var gapandi frír á teig Arsenal. Honum brást ekki bogalistinn og tvöfaldaði hann forystuna fyrir United.

Arsenal náði að laga stöðuna fyrir hlé. Aaron Ramsey átti laglega sprett inn á teig United sem endaði með því að boltinn barst á fjærstöngina þar Pierre-Emerick Aubameyang kom boltanum yfir línuna. 2-1 fyrir United í hálfleik.

Þriðja og síðasta mark United kom tíu mínútum fyrir leikslok er Anthony Martial fylgdi á eftir skoti Paul Pogba sem Petr Cech varði beint út í teiginn. Klaufalegt.

Fleiri urðu mörkin ekki og áttundi sigur Norðmannsins í röð. Ótrúleg breyting á liðinu en United hefur aldrei lent undir með Norðmanninn á hliðarlínunni. Arsenal er hins vegar úr leik í enska bikarnum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira