Enski boltinn

Solskjær sér fyrirliðaefni í Paul Pogba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær fagnar sigri með Paul Pogba og Fred.
Ole Gunnar Solskjær fagnar sigri með Paul Pogba og Fred. Getty/Stu Forster
Paul Pogba var nánast útskúfaður undir það síðasta í stjóratíð Jose Mourinho en veröld Frakkans hefur algjörlega breyst eftir að Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær settist í stjórastólinn á Old Trafford.

Pogba fékk algjört aðalhlutverk um leið og Solskjær tók við og nú er sá norski byrjaður að tala um Pogba sem framtíðarfyrirliða Manchester United.

Paul Pogba var fyrirliði í þremur leikjum í haust þegar Antonio Valencia meiddist í september en Jose Mourinho tók síðan fyrirliðabandið af honum og henti honum síðan út í horn.





„Ég þekki strákinn frá fyrri tíð og hann er leiðtogi,“ sagði Ole Gunnar Solskjær á blaðamannafundi fyrir bikarleikinn á móti Arsenal í kvöld. Solskjær var nefnilega þjálfari 23 ára liðs United frá 2008 til 2010.

„Hann virkjar fólk. Aðrir skipta hann máli og hann vill ná árangri,“ sagði Solskjær. Hann sér hann sem framtíðarfyrirliða Manchester United.

Pogba hefur vakið talsvert umtal og gagnrýni vegna hegðunar sinna utan vallar og þá hefur verið mikið gert grín af hægum aðhlaupum hans í vítaspyrnum.

Eftir að Solskjær mætti á staðinn hefur hann aftur á móti verið óstöðvandi með fimm mörk og fjögur stoðsendingar í sex deildarleikjum sem allir hafa unnist.

„Paul er mjög stór persónuleiki og þannig er hann bara. Samfélagsmiðlar eru núna hluti af okkar lífi. Þannig er bara þjóðfélagið núna. Við erum með ákveðnar reglur og gerum enga athugasemd við þetta hjá honum ef hann fylgir þeim,“ sagði Solskjær.

Ashley Young hefur verið fyrirliði í fjarveru Antonio Valencia og Solskjær breytti því ekki þegar hann tók við af Mourinho. Norðmaðurinn er aftur á móti líklegur til að gera Paul Pogba að fyrirliða liðsins fái hann að halda áfram sem stjóri Manchester United næsta haust.

Bikarleikur Arsenal og Manchester United fer fram á Emirates-leikvanginum og hefst klukkan 19.55 en hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×