Enski boltinn

Chelsea hafði betur í vítaspyrnukeppni gegn Tottenham og mætir City í úrslitunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hazard fagnar í kvöld.
Hazard fagnar í kvöld. vísir/epa
Chelsea er komið í úrslitaleik enska deildarbikarsins eftir sigur gegn Tottenham í vítaspyrnukeppni er liðin mættust í síðari leik undanúrslitanna á Stamford Bridge í kvöld.

Chelsea vann 2-1 sigur í leik liðanna í kvöld eftir að Tottenham hafði unnið fyrri leikinn 1-0. Því var gripið til vítaspyrnukeppni þar sem bæði Eric Dier og Lucas Moura klúðru sínum spyrnum.

Það verða því Chelsea og Manchester City sem mætast í úrslitaleik enska deildarbikarsins sem fer fram á Wembley 24. febrúar en City stóð uppi sem sigurvegari í þessari sömu keppni í fyrra.

Chelsea komst yfir með marki á 27. mínútu en markið kom úr nokkuð óvæntri átt. N'Golo Kante skaut að marki Tottenham rétt fyrir utan vítateiginn sem virtist vera auðvelt skot fyrir Paolo Gazzaniga. Það reyndist svo ekki auðvelt fyrir Gazzaniga því boltinn fór í gegnum klofið á honum og inn. Afar klaufalegt.

Ellefu mínútum síðar var Chelsea búið að tvöfalda forystuna. Fyrirgjöf frá Cesar Azpilicueta endaði hjá Belganum Eden Hazard sem gerði enginn mistök og tvöfaldaði forystuna fyrir Chelsea. 2-0 fyrir Chelsea í hálfleik en samanlagt 2-1 í einvíginu.

Það voru ekki liðnar nema sex mínútur er Tottenham minnkaði muninn í leik kvöldsins og jafnaði metin í einvíginu samanlagt. Danny Rose kom með frábæra sendingu fyrir markið og Fernando Llorente var öflugur i teignum og stangaði boltann í netið.

Bæði lið fengu tækifæri til að tryggja sér sigurinn í einvíginu en stærsta tækifærið fékk Oliver Giroud í uppbótartíma er skalli hans úr dauðafæri fór framhjá markinu. Því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Fyrstu fjögur vítin fóru í netið áður en Eric Dier skaut boltanum langt yfir markið. Jorginho skoraði úr næsta víti Chelsea en aftur klúðraði Tottenham er Kepa varði frá Lucas Moura. David Luiz tryggði svo Chelsea sæti í úrslitaleiknum.

Vítaspyrnukeppnin í heild sinni:

Christian Eriksen skorar fyrir Tottenham (1-0)

Willian skorar fyrir Chelsea (1-1)

Erik Lamela skorar fyrir Tottenham (2-1)

Cezar Azpilicueta skorar fyrir Chelsea (2-2)

Eric Dier skýtur yfir (2-2)

Jorginho skorar fyrir Chelsea (2-3)

Kepa ver frá Lucas Moura (2-3)

David Luiz skorar fyrir Chelsea (2-4)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×