Enski boltinn

Rio Ferdinand sá stress hjá leikmönnum Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liverpool fyrir leikinn í gær.
Leikmenn Liverpool fyrir leikinn í gær. Getty/Robbie Jay Barratt
Pressan var mikil á Liverpool liðinu í Leicester leiknum í gær og einn sigursælasti miðvörður enska boltans sá varúðarmerki á liðinu.

Liverpool er með það algjörlega í sínum höndum hvort liðið endi 29 ára bið eftir Englandsmeistaratitlinum en þá þurfa leikmenn liðsins að halda áfram að spila sinn leik.

Rio Ferdinand varð sex sinnum Englandsmeistari með Manchester United og hann þekkir vel stöðuna sem leikmenn Liverpool eru í núna. Hann hefur smá áhyggjur af Liverpool eftir leik gærkvöldsins.

Lærisveinum Jürgen Klopp mistókst þá að ná sjö stiga forskoti á Manchester City á toppnum en jafntefli við Leicester þýðir að það munar nú fimm stigum á liðunum.





„Ég tók eftir stressi í Liverpool-liðinu. Það er eitthvað sem Klopp þarf að taka á. Þú vilt ekki sjá í stress í liðinu þínu þegar svona mikið er eftir af mótinu,“ sagði Rio Ferdinand við BT Sport.

Liverpool fékk draumabyrjun, komst í 1-0 í upphafi og fékk nokkur góð færi eftir það. Fljótlega komst Leicester hins vegar inn í leikinn og lítið gekk hjá Liverpool að skapa sér góð færi eftir það.

Liverpool átti vissulega að fá víti í seinni hálfleik en mistök í uppbótatíma fyrri hálfleiks kostaði liðið jöfnunarmark.

„Mér fannst þeir vera stressaðir, stuðningsmennirnir voru stressaðir og það hafði áhrif á leikmennina,“ sagði Ferdinand.





„Ég myndi hafa smá áhyggjur af þessu og því að í liðið vantaði mann til að taka ábyrgð í staðinn fyrir að ýta henni yfir á næsta mann,“ sagði Ferdinand.

Rio Ferdinand vann enska titilinn 2002–03, 2006–07, 2007–08, 2008–09, 2010–11 og 2012–13. Hann var í liði ársins á fjórum af þessum sex meistaratímabilum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×