Enski boltinn

Gömlu Liverpool-stjórarnir að hjálpa sínu gamla félagi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson og Rafael Benítez.
Roy Hodgson og Rafael Benítez. Getty/Nigel Roddis
Roy Hodgson og Rafael Benítez tókst hvorugum að enda langa bið Liverpool eftir enska meistaratitlinum þegar sátu í stjórastólnum á Anfield en þeir hafa hjálpað sínu gamla félagi mikið í vetur.

Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool liðinu geta náð sjö stiga forskoti á toppnum í kvöld þökk sé tapi Manchester City á móti Newcastle í gær. Liverpool tekur þá á móti Leicester City á Anfield.

Manchester City hefur tapað fjórum leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en allir tapleikir liðsins hafa verið í desember og janúar. Tveir af þeim allra óvæntustu hafa verið á móti Crystal Palace og Newcastle en City hefur einnig tapað fyrir Chelsea og Leicester City.





Það bjuggust fáir við að Crystal Palace og Newcastle gerðu eitthvað á móti Manchester City ekki síst þar sem Manchester City komst í 1-0 í báðum leikjunum.

Crystal Palace vann 3-2 sigur á Manchester City á Ethiad leikvanginum tveimur dögum fyrir jól og áfallið var kannski svo mikið að liðið tapaði líka á öðrum degi jóla og þá fyrir Leicester City.

Fyrir vikið náði Liverpool sjö stiga forystu á toppi deildarinnar sem City minnkaði síðan í fjögur stig með því að vinna innbyrðisleik liðanna í upphafi ársins.

Manchester City hafði unnið alla leiki sína í öllum keppnum á árinu 2019 þegar liðið heimsótti Newcastle í gær og City komst í 1-0 eftir aðeins 25 sekúndur. Það leit því allt út fyrir öruggan sigur á liðinu í 17. sæti deildarinnar.





Annað kom á daginn Newcastle snéri leiknum við með tveimur mörkum í seinni hálfleik eftir örugglega eina góða ræðu frá Rafael Benítez.

Rafael Benítez var knattspyrnustjóri Liverpool frá 16. júní 2004 til 3. júní 2010. Hann stýrði liðinu því á sex tímabilum og liðið endaði á þeim tíma einu sinni í öðru sæti (2009) og tvisvar í þriðja sæti (2006 og 2007). Liverpool vann einnig Meistaradeildina 2005 og enska bikarinn 2006.

Roy Hodgson var knattspyrnustjóri Liverpool frá 1. júlí 2010 til 8. janúar 2011 þegar hann var látinn fara og Kenny Dalglish tók við. Liverpool endaði í sjötta sæti á því tímabili, enn neðar næstu tvö tímabil á eftir (8. sæti og 7. sæti) og komst ekki aftur í Meistaradeildina fyrr en 2014-15 tímabilið.

Þessi sex stig sem Manchester City tapað á móti liðum úr neðsta þriðjungi deildarinnar fara langt með að gera út um keppnina um enska meistaratitilinn í ár. Þeir Roy Hodgson og Rafael Benítez náðu því ekki að gera Liverpool að meisturum á sínum tíma en hjálpuðu til í ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×