Fótbolti

Jafnt eftir fyrri leik Barcelona og Real

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. vísir/getty
Barcelona og Real Madrid gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum spænska konungsbikarsins en leikið var á Camp Nou í kvöld.

Liðin voru ekki með sín bestu lið í kvöld. Argentínumaðurinn Lionel Messi var á bekknum hjá Börsungum til að mynda en hjá Real Madrid var Gareth Bale á bekknum.

Það voru ekki liðnar nema sex mínútur er gestirnir frá Madríd voru komnir yfir. Brasilíumaðurinn Vinicius óð upp kantinn, kom boltanum á Karim Benzema sem lagði boltann Lucas Vazquez sem kom boltanum í netið.

Börsungar jöfnuðu metin á 57. mínútu eftir smá japl, jaml og fuður. Jordi Alba óð inn á teiginn, boltinn barst til Luis Suarez sem skaut boltanum í stöngina. Boltinn fór þaðan til Malcom sem kom boltanum í netið og allt jafnt.

Fimm mínútum síðar var kallað á Lionel Messi og Gareth Bale til að mynda en fleiri urðu mörkin þó ekki og lokatölur 1-1.

Liðin mætast aftur, þá á Bernabeu, síðar í mánuðinum, nánar tiltekið 27. febrúar, og þá ræðst hvort liðið fer í úrslitaleikinn gegn Betis eða Valencia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×