Enski boltinn

Ince útskýrir orð sín: „Hef ekkert á móti Ole en hvaða stjóri sem er gat gert það sama“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ole Gunnar Solskjær hefur komið Manchester United á rétta braut á ný
Ole Gunnar Solskjær hefur komið Manchester United á rétta braut á ný vísir/getty
Nærri hver sem er hefði getað komið inn og náð sama árangri og Ole Gunnar Solskjær hefur náð með Manchester United. Þetta segir Paul Ince, fyrrum leikmaður United.

Ince sagði í janúar að hann hefði getað náð sama árangri og Solskjær og fóru þau ummæli misvel í fólk. Hann skýrði mál sitt frekar í pistli á vefsíðu BBC í dag.

„Það sem ég meinti með þessu var að það vissu allir hver vandræði United væru undir Mourinho, og sem þjálfari þá veit ég að það er nokkuð einfalt að leysa þau til styttri tíma,“ skrifar Ince.

„Ég er ekki bara sérfræðingur sem hefur aldrei stýrt liði, ég hef stýrt liðum í úrvalsdeildinni og öllum fjórum deildum Englands, svo það getur enginn sagt ég viti ekki um hvað ég sé að tala.“

„Ég vildi bara benda á að það var auðvelt fyrir hvern sem kom inn að lyfta andrúmsloftinu og koma félaginu aftur á rétta braut. Ég vildi ekki sýna Ole neina óvirðingu.“

„Það sem ég átti við var að hvaða stjóri, til dæmis ég, Steve Bruce eða Mark Hughes, gat séð hvað var að og komið inn og breytt umhverfinu til hins betra.“



Ole Gunnar Solskjær var ráðinn bráðabirgðastjóri United í desember og er hann með samning út tímabilið þegar framtíðarstjóri verður ráðinn. Hann hefur farið frábærlega af stað, unnið níu af fyrstu tíu leikjum sínum í öllum keppnum.

„Hann hefur náð góðum úrslitum og komið félaginu aftur á rétta braut, en það þýðir þó ekki að hann sé rétti maðurinn til þess að fá starfið í sumar.“

„Ég hef ekkert á móti Ole, en þegar horft er til liða sem hafa gert bráðabirgðastjóra sína að framtíðarstjórum þá hafa fæstir þeirra enst mjög lengi í starfi. Roberto Di Matteo hjá Chelsea er gott dæmi um þetta.“


Tengdar fréttir

Gerir lítið úr „göldrum“ Ole Gunnars Solskjær

„Hver sem er hefði getað komið inn og gert það sem hann gerði,“ segir Paul Ince, fyrrum leikmaður Manchester United, um starf síðustu vikna hjá nýja knattspyrnustjóra félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×