Fótbolti

Verður einn æðsti maðurinn hjá PSG rekinn?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Antero Henrique er maðurinn á bakvið tjöldin hjá PSG.
Antero Henrique er maðurinn á bakvið tjöldin hjá PSG. vísir/getty
Það er hiti í kringum PSG í Frakklandi en franskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að einn æðsti stjórnandi félagsins gæti verið rekinn á næstunni.

Antero Henrique er yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu og vefurinn Le Parisien greinir frá því að hann gæti fengið sparkið í lok tímabilsins en ósætti er innan félagsins.

Sambandið er ekki gott milli Thomas Tuchel, stjóra PSG, og Antero en þeir eru ekki sáttir hvernig janúarglugginn fór frá félaginu. Antero vildi þétta raðirnar á miðsvæðinu en Tuchel vill að félagið sættist við Adrien Rabiot.

Rabiot hefur neitað að skrifa undir nýjan samning og það hefur farið illa í stjórnarmenn PSG sem hafa látið hann æfa með varaliðinu. Tuchel er ekki ánægður með það; honum líkar vel við Rabiot og vill að hann spili með liðinu en það tekur Antero ekki í mál.

Heimildamðaur Le Parisien segir að Antero hafi komið með hugmyndir að leikmannakaupum í janúar til þess að styrkja miðsvæðið hjá PSG sem hefur verið til vandræða vegna meiðsla Marco Veratta til að mynda en Tuchel vildi ekkert með það gera. Hann vildi bara Rabiot.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu vikum en PSG verður að minnsta kosti án Neymar er liðið mætir Manchester United í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×