Enski boltinn

Klopp: Get ekki gagnrýnt þetta því ég skil þetta ekki

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp þakkar stuðningsmönnum fyrir eftir leikinn gegn Leicester.
Klopp þakkar stuðningsmönnum fyrir eftir leikinn gegn Leicester. vísir/getty
Kyle Walker, hægri bakvörður Manchester City, vakti athygli á miðvikudaginn en hann lét til sín taka á Twitter eftir að Liverpool tapaði stigum gegn Leicester á heimavelli. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli.

Harry Maguire skoraði jöfnunarmark Leicester undir lok fyrri hálfleiks en Liverpool hefði getað náð sjö stiga forskoti með því að vinna Leicester eftir að City tapaði gegn Newcastle kvöldið áður.

Walker birti mynd af Maguire frá því á HM í sumar þar sem hann er að tala við kærustu sína og fleiri stelpur. Með myndinni skrifaði hinn skrautlegi Walker:

„Svo þeir héldu að þeir væru að ná sjö stiga forystu....,“ skrifaði Walker á Twitter-síðu sína en þetta vakti afar mikla athygli og þá sér í lagi með Liverpool-manna.







Bæði Pep Guardiola og Jurgen Klopp, stjóri Manchester City og Liverpool, voru spurðir út í þetta á blaðamannafundi í dag.

„Ég hef ekki áhyggjur af samfélagsmiðlum og hvað leikmennirnir gera á Twitter, Instagram eða á öðrum samfélagsmiðlum. Ég stýri því ekki,“ sagði Guardiola en Klopp var öðru á máli.

„Ég fagna því ekki þegar annað lið tapar stigum eða tapar leik. Fyrir mig er það ekki í lagi. Þannig skil ég íþróttir. Þú verður að sjá um þína eigin hluti.“

„Þú verður að vinna þína vinnu og reyna spila þinn besta leik. Mér er alveg sama. Ég skil þetta ekki. Það er ekkert að gagnrýna fyrir mig því ég skil þetta ekki. Hvernig á ég þá að gagnrýna þetta?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×