Fótbolti

Stóðu heiðursvörð þegar Sverrir Ingi kom á fyrstu æfinguna með PAOK

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikinn Sverrir Ingi Ingason spilar nú í svarthvítum búningi PAOK.
Blikinn Sverrir Ingi Ingason spilar nú í svarthvítum búningi PAOK. Mynd/Twitter/@PAOK_FC
Það er óhætt að segja að íslenski landsliðsmiðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason hafi fengið frábærar móttökur hjá nýja félaginu sínu í Grikklandi.

PAOK keypti Sverrir Inga í gær frá rússneska félaginu FK Rostov og kynnti nýjasta leikmanninn sinn á samfélagsmiðlum í dag.

Eins og við sögðum frá á Vísi fyrr í dag þá sást Sverrir Ingi rífa keppnistreyju sína og öskra Víkingaöskur í fyrsta myndbandinu en það átti nóg eftir að koma inn á samfélagsmiðla PAOK.





Fyrst kom annað myndband þar sem mátti sjá tilþrif frá ferli Sverri Inga með fyrri liðum sínum í atvinnumennsku. Það er hér fyrir neðan.





Þá birtust einnig myndir og viðtal við Sverri Inga en svo var komið að því að drífa sig á fyrstu æfinguna.





Þegar Sverrir Ingi mætti þá stóðu nýju liðsfélagar hans heiðursvörð og mynduðu síðan hring í kringum hann. Sverrir var smá vandræðalegur eins og sést hér fyrir neðan en hafði eflaust mjög gaman af öllu saman.





Nú er bara að vona að íslenski landsliðsmiðvörðurinn standi undir öllum væntingunum sem eru greinilega gerðar til hans í herbúðum PAOK.

Sverrir Ingi er eins og við vitum hörkuleikmaður og vonandi finnur hans sig í gríska fótboltanum þar sem leikmenn eru ýmist elskaðir eða hataðir. Þar er oft stutt á milli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×