Enski boltinn

Alan Shearer: Það er eitthvað að hjá Liverpool-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Henderson er fyrirliði Liverpool og þarf að öskra sitt lið í gang á ný.
Jordan Henderson er fyrirliði Liverpool og þarf að öskra sitt lið í gang á ný. Getty/Laurence Griffiths
Markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi sér mikinn mun á sóknarleik Liverpool liðsins eftir áramót og hefur áhyggjur af bitleysi hans í síðustu leikjum.

Liverpool er komið aftur á topp ensku úrvalsdeildarinnar en hefur aðeins unnið einn af síðustu fjórum deildarleikjum sínum og er búið að gera markalaust jafntefli í síðustu tveimur leikjum í öllum keppnum.

Alan Shearer er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi en vinnur nú sem knattspyrnusérfræðingur í þættinum Match Of The Day hjá BBC. Hann skrifaði pistil um Liverpool-liðið á vef BBC.

„Liverpool er komið aftur á toppinn en það er augljóst að það er ekki allt í lagi með liðið. Liverpool fékk frábært tækifæri til að vinna meiðslahrjáð lið Manchester United á Old Trafford en bauð í staðinn upp á vonbrigða frammistöðu“ skrifaði Alan Shearer.



„Þegar við hugsum um Liverpool lið Jürgen Klopp á sínu besta degi undanfarin ár þá hafa þau verið stórhættuleg fram á við í sambandi við það hvernig liðið pressar andstæðinga sína og kemur mótherjunum í vandræði með orku sinni og hraða í sóknarleiknum,“ skrifaði Shearer.

„Við sáum ekkert slíkt í Manchester United leiknum. Liverpool liðið bauð nánast ekki upp á neitt fram á við og United liðið hefði nánast getað spilað án David de Gea í markinu,“ skrifaði Shearer.

„Þetta kom mér mjög á óvart því það hlýtur að hafa gefið Liverpool meira sjálfstraust fyrir leikinn að sjá það að Nemanja Matic, einn af lykilmönnunum síðan að Ole Gunnar Solskjær tók við, var ekki með vegna meiðsla. Það hefði líka átt að hjálpa þeim að sjá United skipta þremur meiddum mönnum af velli í fyrri hálfleik. Þeir hefðu átt að hugsa: Þetta er okkar tækifæri,“ skrifaði Shearer en bætti við: „Í staðinn buðu þeir nánast upp á ekki neitt.“

„Liverpool liðið var mjög dauft á Old Trafford en þetta var ekki fyrsta slaka frammistaða liðsins á síðustu vikum. Pressan hefur eitthvað truflað liðið sama hvað stjórinn þeirra er að halda fram. Ekki getað þeir kennt þreytu um því þetta var bara fimmti leikur liðsins á fimm vikum og þeir hafa farið í sólarferðir til bæði Dúbaí og Spánar á þessum tíma,“ skrifaði Shearer.





„Það er eitthvað að hjá liðinu því Liverpool hefur gert þrjú jafntefli í síðustu fjórum leikjum í deildinni og gerði líka jafntefli á móti Bayern München í Meistaradeildinni,“ skrifaði Shearer.

„Að mínu mati liggur vandamálið í sóknarleiknum eða öllu frekar í skorti á honum. Ég hef meiri áhyggjur af honum en af þessum úrslitum því þeir hafa ekki verið líkir sjálfum sér í þeim,“ skrifaði Shearer en það má finna allan pistil hans hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×