Enski boltinn

Mesta skothríð Gylfa á ferlinum var á móti Arsenal í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum á móti Arsenal í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum á móti Arsenal í gær. Getty/Simon Stacpoole
Við fengum ekki íslenskt mark í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í gær en aftur á móti nóg af íslenskum markskotum á Goodison Park í Liverpool.

Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson náði ekki að skora sjálfur eða leggja upp mark á móti Arsenal á Goodison Park í gær en það var ekki vegna þess að hann reyndi ekki.

Gylfi setti nýtt persónulegt met í leiknum með því að reyna sjö skot að marki Arsenal-liðsins en hann var með jafnmörg skot í leiknum og allir leikmenn Arsenal liðsins til samans.





Gylfi getur samt verið smá svekktur út í sjálfan sig með því að gera ekki betur í nokkrum færa sinna í leiknum en í seinni hálfleiknum hefði hann getað farið langt með að innsigla sigur Everton en hitti boltann ekki nægilega vel.

Það kom þó ekki að sök því Everton hélt út og vann 1-0 sigur á Arsenal.

Gylfi var ekki aðeins að reyna að skora sjálfur því fjórum sinnum spilaði hann liðsfélaga sína í færi en enginn þeirra náði að skora. Gylfi fékk því ekki stoðsendingu en var með þessar fjórar lykilsendingar sem var það mesta hjá öllum á vellinum.

Gylfi var því sá leikmaður leiksins sem bæði skaut oftast að marki og sá sem bjó til flest færi. Engin af þessum ellefu tilraunum Gylfa (sjö skot og fjórar lykilsendingar) skiluðu marki en okkar maður var allt í öllu í þessum þriðja sigurleik Everton-liðsins í röð.





Gylfi hafði komið að marki í fyrstu tveimur leikjunum í sigurgöngunni en Everton er ekki aðeins með 9 stig út úr síðustu þremur leikjum sínum í deildinni heldur er liðið einnig með hreint mark í þeim.

Gylfi er áfram með tólf mörk og fjórar stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en enginn leikmaður Everton hefur komið að fleiri mörkum. Gylfi hefur skorað jafnmörg mörk og Brasilíumaðurinn Richarlison.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá þessum leik á Goodison Park í gær:

Klippa: FT Everton 1 - 0 Arsenal



Fleiri fréttir

Sjá meira


×