Fótbolti

Ajax bikarmeistari í fyrsta sinn í níu ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Ajax fagna.
Leikmenn Ajax fagna. vísir/getty
Ajax er hollenskur bikarmeistari eftir 4-0 sigur á Willem II í dag. Þetta er í fyrsta sinn í níu ár sem Ajax verður bikarmeistari.

Ajax hefur átt frábært tímabil og á enn möguleika á að vinna þrefalt. Liðið er á toppi hollensku úrvalsdeildarinnar og leiðir 1-0 eftir fyrri leikinn gegn Tottenham í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Kristófer Ingi Kristinsson lék ekki með Willem II sem hélt sjó framan af, eða allt þar til Daley Blind kom Ajax yfir á 38. mínútu. Aðeins mínútu síðar bætti Klaas-Jan Huntelaar öðru marki við.

Huntelaar var aftur á ferðinni á 67. mínútu þegar hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark Ajax. Hann hefur alls skorað fimm mörk í bikarúrslitaleikjum í Hollandi, einu marki minna en Johann Cruyff gerði á sínum tíma.

Það var svo Daninn Rasmus Kristensen sem átti síðasta orðið þegar hann skoraði fjórða mark Ajax á 76. mínútu. Lokatölur 4-0, Ajax í vil.

Ajax hefur 19 sinnum orðið hollenskur bikarmeistari, oftast allra liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×