Fjórða sætið nánast úr sögunni hjá Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glenn Murray, markaskorari Brighton, í baráttu við Sokratis Papastathopoulos, varnarmann Arsenal.
Glenn Murray, markaskorari Brighton, í baráttu við Sokratis Papastathopoulos, varnarmann Arsenal. vísir/getty
Arsenal á nánast enga möguleika á að ná 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 1-1 jafntefli við Brighton á heimavelli í dag. Skytturnar hafa aðeins fengið eitt stig í síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

Arsenal er í 5. sæti deildarinnar með 67 stig, þremur stigum á eftir Tottenham sem er í 4. sætinu. Þá er Spurs með mun betri markatölu; 28 mörk í plús en Arsenal með 20 mörk í plús. Möguleikar Arsenal á að ná 4. sætinu er því nánast engir.

Arsenal getur þó alltaf náð Meistaradeildarsæti með því að vinna Evrópudeildina. Arsenal er komið með annan fótinn í úrslitaleik keppninnar eftir 3-1 sigur á Valencia í fyrri leik liðanna í undanúrslitum á fimmtudaginn var.

Skytturnar komust yfir á 9. mínútu í leiknum í dag þegar Pierre-Emerick Aubameyang skoraði úr vítaspyrnu. Þetta var 20. mark hans í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Staðan var 1-0 í hálfleik en á 61. mínútu jafnaði Glenn Murray metin af vítapunktinum. Þessi ólseigi framherji er kominn með tólf deildarmörk í vetur.

Fleiri urðu mörkin ekki og liðin sættust á skiptan hlut. Brighton er í 17. sæti og er öruggt með sæti sitt í deildinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira