Enski boltinn

Neil Warnock: Aron verður alltaf í uppáhaldi hér í Cardiff

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson er í miklu uppáhaldi í Cardiff.
Aron Einar Gunnarsson er í miklu uppáhaldi í Cardiff. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði og leikmaður Cardiff í ensku úrvaldeildinni, spilar sinn síðasta heimaleik fyrir Cardiff á morgun þegar að velska liðið mætir Crystal Palace.

Aron er á leið til Al Arabi í Katar eftir tímabilið þar sem að hann hittir fyrir Heimi Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara, en Aron hefur spilað á Englandi undanfarin ellefu ár eða síðan að hann gekk í raðir Coventry árið 2008.

Landsliðsfyrirliðinn fór til Cardiff árið 2011 en hann á að baki yfir 400 leiki í tveimur efstu deildum Englands. Hann er nú í annað sinn á ferlinum að spila í ensku úrvalsdeildinni en í bæði skiptin hefur hann gert það með Cardiff.

Aron Einar hefur spilað 342 leiki fyrir Cardiff og skorað 29 mörk og lagt upp önnur 24. Hann hefur verið mikill leiðtogi í liðinu og í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum nánast frá því að hann kom til félagsins eins og kom fram í máli knattspyrnustjórans í dag.

„Hann hefur verið frábær fyrir félagið. Hann á mikinn heiður skilið fyrir það sem hann hefur gert fyrir Cardiff jafnt innan sem utan vallar. Ég held að hann verði alltaf í uppáhaldi hér á Cardiff-vellinum,“ sagði Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff, á blaðamannafundi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×