Enski boltinn

Cahill: „Erfitt að bera virðingu fyrir Sarri“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Cahill hefur eytt miklum tíma í upphitunartreyjunni í vetur
Cahill hefur eytt miklum tíma í upphitunartreyjunni í vetur vísir/getty
Gary Cahill er óánægður með hvernig Maurizio Sarri stjórnar liði sínu hjá Chelsea og segir það erfitt að bera virðingu fyrir ítalska stjóranum.

Cahill er fyrirliði Chelsea en hann mun yfirgefa félagið í sumar á frjálsri sölu eftir tímabil þar sem hann kom aðeins við sögu í sjö leikjum.

„Þetta hefur verið alveg hræðilegt tímabil fyrir mig persónulega,“ sagði Cahill við Telegraph.

„Ég mun þurrka þetta tímabil út þegar ég fer héðan. Síðasta minnning mín frá Chelsea verður bikarúrslitaleikurinn síðasta vor.“



Cahill lyfti bikarmeistaratitlinum með Chelsea eftir sigur á Manchester United í úrslitaleik á Wembley fyrir ári síðan.

„Ég hef spilað reglulega síðustu sex ár og unnið allt sem hægt er að vinna með Chelsea. Að þurfa að horfa úr stúkunni er eitthvað sem ég átti ekki von á.“

„Ég þekki þetta félag inn og út og á sterk sambönd við allt starfsliðið og leikmennina, en ekkert af því hefur verið nýtt í vetur.“

„Ef stjóri spilar ekki leikmanni í tvo, þrjá leiki þá þarf hann ekkert að útskýra það. En ef það er komið upp í átta, níu leiki þá þarf að útskýra hvað sé í gangi. En hann hefur ekki gert það.“

„Það er mjög erfitt fyrir mig að bera virðingu fyrir einhverjum sem hefur ekki sýnt því virðingu hvað ég, og sumir aðrir leikmenn, höfum gert fyrir félagið.“

Chelsea mætir Watford í dag og sækir Leicester heim í lokaumferðinni í baráttunni um fjórða sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×