Fótbolti

Brassarnir spila í „hundrað ára gömlum“ búningum í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar í hvíta búningnum.
Neymar í hvíta búningnum. Mynd/Twitter/@CBF_Futebol
Brasilíska karlalandsliðið í knattspyrnu mun spila í sérstökum búningum í Suðurameríkukeppninni í sumar.

Copa América fer fram í Brasilíu í sumar og stendur yfir frá 14. júní til 7. júlí. Keppnin verður í beinni á sportstöðvum Stöðvar tvö.

Þetta er 46. skiptið sem Copa América fer fram en Síle hefur unnið tvær síðustu keppnir sem fóru fram 2015 og 2016.

Brasilíumenn unnu keppnina síðan árið 2007 en þeir voru þá að vinna hana í áttunda skiptið.

Brassarnir ætla hins vegar í sumar að minnast fyrsta sigurs síns í Copa América keppninni árið 1919 með því að spila í „hundrað ára gömlum“ búningum í keppninni í ár.





Neymar, Philippe Coutinho, Gabriel Jesus, Roberto Firmino, Thiago Silva og félagar í brasilíska landsliðinu munu spila í hvítum búningum í keppninni en þetta var svipaðir búningar og fyrstu meistararnir spiluðu í maímánuði 1919.

Árið 1919 fór Copa América keppnin einmitt fram í Brasilíu og Brasilíumenn unnu hana á markatölu eftir að hafa skorað 11 mörk í 3 leikjum.

Arthur Friedenreich og Neco voru markahæstu menn keppninnar með fjögur mörk hvor. Friedenreich er sagður hafa skorað 1329 mörk á ferlinum en þær tölur hafa aldrei fengið staðfestar.

Neco var kannski þekktastur fyrir að hafa verið rekinn út vinnu sem trésmiður eftir að hann tóks sér frí til að keppa fyrir hönd Brasilíu í keppninni. Neco skoraði bæði mörkin í 2-2 jafnteflinu við Úrúgvæ sem færði Brasilíu Suðurameríkutitilinn í fyrsta sinn.





Brasilíumenn spiluðu reyndar í mjög svipuðum hvítum treyjum þegar þeir klúðruðu heimsmeistaratitlinum á heimavelli árið 1950. Úrúgvæ mætti þá á Maracana leikvanginn og vann 2-1 þegar Brössunum nægði jafntefli en leikurinn fékk seinna viðurnefnið Maracanazo.

Í framhaldinu hættu Brasilíumenn að spila í hvítu og tóku upp sína heimsþekkta gulu og grænu búninga. Þeir urðu heimsmeistarar í fyrsta sinn 1958 og endurtóku síðan leikinn 1962, 1970, 1994 og 2002. Nú ætla þeir að storka örlögunum á ný og kannski færir það þeim fyrsta sigurinn í Copa América keppninni í tólf ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×