Fótbolti

Ajax fékk á sig sex mörk í toppslag

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Van Persie fór illa með Matthjis De Ligt og félaga
Van Persie fór illa með Matthjis De Ligt og félaga vísir/getty
Stórleikur Ajax og Feyenoord í hollenska boltanum stóð svo sannarlega undir væntingum, í það minnsta fyrir alla aðra en stuðningsmenn Ajax en þessi stórveldi áttust við í toppslag í hollensku úrvalsdeildinni í dag á hinum sögufræga De Kuip leikvangi í Rotterdam.

Daninn Lasse Schöne kom Ajax yfir snemma leiks en Jens Toornstra var snöggur að svara fyrir heimamenn. Steven Berghuis kom Feyenoord svo yfir eftir hálftíma leik en Hakim Ziyech svaraði af bragði fyrir gestina. Gamla brýnið Robin van Persie sá svo til þess að Feyenoord færi með forystu í leikhléið.

Í síðari hálfleik héldu heimamenn áfram að raða inn mörkum. Van Persie var aftur að verki á 54.mínútu og kom Feyenoord í 4-2 áður en Tonny Vilhena og Yassine Ayoub fullkomnuðu niðurlægingu Ajax á síðasta stundarfjórðungnum. Lokatölur 6-2 fyrir Feyenoord.

Frábær úrslit fyrir þriðja risann, PSV Eindhoven en þeir tróna á toppi deildarinnar með fimm stigum meira en Ajax sem er í öðru sæti. Þrátt fyrir sigurinn í dag er Feyenoord átta stigum á eftir Ajax en þessi þrjú lið eru í algjörum sérflokki í þremur efstu sætum deildarinnar.

Á sama tíma vann Willem II 0-1 útisigur á Utrecht þar sem Kristófer Ingi Kristinsson sat allan tímann á varamannabekknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×