VAR kom mikið við sögu er Chelsea komst áfram í bikarnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Marriner var í eldlínunni í dag.
Marriner var í eldlínunni í dag. vísir/getty
Chelsea er komið áfram í fimmtu umferð enska bikarsins eftir 3-0 sigur á B-deildarliðinu Sheffield Wednesday þar sem VAR kom mikið við sögu.

Gonzalo Higuain spilaði sinn fyrsta leik fyrir Chelsea eftir að hann gekk í raðir liðsins á láni frá Napoli í vikunni en hann byrjaði sem fremsti maður Chelsea.

Sheffield Wednesday virtist vera að fá vítaspyrnu á 24. mínútu er Ethan Ampadu var dæmdur brotlegur. Myndbandsupptökur voru hins vegar notaðar og dómnum breytt enda sást í endursýningu að sparkað var aftan í Ampadu.

Myndbandsupptökur, VAR, kom ekki Sheffield til bjargar tveimur mínútum síðar er Andre Marriner flautaði aðra vítaspyrnuna. Þessi var hins vegar góð og gild en brotið var á Cesar Azpilicueta innan vítateigs Wednesday.

Á punktinn steig Willian og skoraði af miklu öryggi en staðan var 1-0 þangað allt fram til 64. mínútu er Callum Hudson-Odoi tvöfaldaði forystuna. Ungi strákurinn skoraði þá eftir laglegan einleik.

Þriðja og síðasta markið kom sjö mínútum fyrir leikslok. Willian skoraði þá annað mark sitt en eftir laglegt samspil við varamanninn Oliver Giroud skoraði hann með glæsilegu skoti í fjærhornið. Lokatölur 3-0.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira