Burnley stöðvaði sigurgöngu United undir stjórn Solskjær

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Burnley fagna marki Barnes.
Leikmenn Burnley fagna marki Barnes. vísir/getty
Burnley varð í kvöld fyrsta liðið til þess að stöðva Manchester United undir stjórn Ole Gunnar Solskjær en Burnley og United gerðu 2-2 jafntefli í kvöld.

Staðan var markalaus í hálfleik þar sem heimamenn voru mun meira með boltann. Marcus Rashford fékk til að mynda dauðafæri en klúðraði og allt jafnt í hálfleik.

Það voru hins vegar gestirnir sem komust yfir á 51. mínútu. Andreas Pereira missti boltann á hættulegum stað, Jack Cork kom boltanum á Ashley Barnes sem kláraði færið frábærlega.

Gestirnir tvölduðu forystuna svo níu mínútum fyrir leikslok. Eftir fyrirgjöf Ashley Westwood var Chris Wood aleinn inn á teignum og hann skallaði boltann laglega í netið undir engri pressu.

United fékk vítaspyrnu á 88. mínútu er brotið var á Jesse Lingard inn á teignum. Á punktinn steig Paul Pogba og skoraði af miklu öryggi. Fimmti heimaleikurinn í röð sem franski heimsmeistarinn kemst á blað.

Fjörinu var ekki lokið því í uppbótartímanum jafnaði Victor Lindelöf metin með sínu fyrsta marki á leiktíðinni er hann fylgdi á eftir skoti sem Tom Heaton hafði varið út í teiginn. Lokatölur 2-2.

Eftir að hafa unnið fyrstu átta leikina sína varð Burnley því fyrsta liðið til þess að ná stigi af United en United er í sjötta sætinu með 44 stig, þremur stigum á eftir Arsenal og Chelsea sem eru í sætunum fyrir ofan.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á í liði Burnley rétt fyrir annað mark Burnley. Þeir eru í sextánda sæti deildarinnar, þremur stigum frá fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira