Enski boltinn

Chelsea ætlar ekki að selja Hudson-Odoi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hudson-Odoi í bikarleiknum um síðustu helgi.
Hudson-Odoi í bikarleiknum um síðustu helgi. vísir/getty
Chelsea hefur tjáð unglingnum Callum Hudson-Odoi að hann verði ekki seldur frá félaginu og fái því ekki að fara til Bayern München.

Þessi 18 ára strákur á eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við Chelsea og hefur verið eftirsóttur af Bayern.

Bayern er sagt hafa boðið 35 milljónir punda í hann og strákurinn er æstur í að fara til Þýskalands. Þó svo hann sé ungur vill hann spila meira en hann hefur fimm sinnum verið í byrjunarliði Chelsea í vetur. Aldrei þó í deildinni.

Strákurinn skoraði í bikarsigrinum á Sheff. Wed um nýliðna helgi. Frammistaða hans þar gerði lítið annað en að vekja meira áhuga á honum.

Hudson-Odoi hefur farið fram á sölu en aðstoðarþjálfarinn Gianfranco Zola segir að félagið hafi mikla trú á honum og ætli ekki að selja. Drengurinn mun falla í verði næsta sumar en forráðamenn Chelsea binda vonir við að drengnum snúist hugur og vilji spila með Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×