Enski boltinn

Benítez kom í veg fyrir að Guardiola bætti met Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, Pep Guardiola og Rafa Benítez.
Jose Mourinho, Pep Guardiola og Rafa Benítez. Vísir/Samsett/Getty
Jose Mourinho er ennþá eini knattspyrnustjórinn sem hefur náð flestum stigum í fyrstu hundrað leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta hefði getað breyst í gær því Pep Guardiola átti möguleika á að jafna þetta stigamet Mourinho. Rafa Benítez sá hins vegar til þess að ekkert varð að því.

Benítez hjálpaði ekki aðeins sínum gömlu félögum í Liverpool í toppbaráttunni heldur kom hann einnig í veg fyrir metjöfnun hjá Pep.





Jose Mourinho náði í 237 stig í fyrstu hundrað leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni en Pep Guardiola fékk núll stig í hundraðasta leiknum sínum á St. James' Park í gær og er því „bara“ með 234 stig.





Pep Guardiola hafði áður jafnað met Jose Mourinho yfir flesta sigurleiki í fyrstu hundrað leikjum sínum og gat því komist einn í efsta sætið í gær. Það tókst aftur á móti ekki og þeir verða því jafnir félagarnir Guardiola og Mourinho með 73 sigra hvor.

Það verður samt seint hægt að kvarta mikið yfir því að vinna 73 prósent leikja sinni og báðir gerðu þeir líka talsvert betur en knattspyrnustjórar eins og Alex Ferguson, Roberto Mancini og Jürgen Klopp.





Svo ótrúlega vill síðan til að Rafa Benítez stýrði liði sínu á móti Jose Mourinho og Pep Guardiola þegar þeir báðir stjórnuðu liði í hundraðasta sinn í ensku úrvalsdeildinni.

Benítez vann líka báða þessa leiki 2-0 á móti Chelsea (Jose Mourinho) í janúar 2007 og svo 2-1 á móti Manchester City (Pep Guardiola) í gær.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×