Enski boltinn

Klopp: Líklega mesta víti við höfum átt að fá

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp vildi fá víti í kvöld.
Klopp vildi fá víti í kvöld. vísir/getty
Jurgen Klopp segir að völlurinn hafi stöðvað nokkrar skyndisóknir Liverpool í 1-1 jafnteflinu gegn Leicester í kvöld er Liverpool mistókst að ná sjö stiga forskot á toppi deildarinnar.

Þjóðverjinn Klopp sagði einnig að Liverpool hafi átt að fá klára vítaspyrnu í síðari hálfleik en ekkert var dæmt.

„Mótherjinn var vel skipulagður og varðist mjög neðarlega. Völlurinn var erfiður og við þurftum að setja meiri hraða á síðasta þriðjungnum. Það var frekar völlurinn sem varðist okkar skyndisóknum en andstæðingurinn,“ sagði Klopp kaldhæðinn í leikslok.

„Við settum þá undir pressu en þeir gerðu vel. Við vorum óheppnir með markið sem við fengum á okkur undir lok fyrri hálfleiks en þú verður að taka því eins og það er.“

Liverpool vildi fá vítaspyrnu í síðari hálfleik er Ricardo Pereira virtist fella Naby Keita innan vítateigs Leicester en Martin Atkinson lét sér fátt um finnast.

„Þetta var líklega mesta víti við höfum átt að fá. Dómarinn var ekki best staðsettur á vellinum en þú verður að spyrja hann afhverju hann dæmdi ekki víti. Það er ekki hægt að breyta því núna,“ sagði Klopp að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×