Enski boltinn

Sarri: Eden Hazard má fara frá Chelsea ef hann vill það

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eden Hazard.
Eden Hazard. Getty/Marc Atkins
Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, setur sig ekki upp á móti því að Eden Hazard fari frá félaginu vilji Belginn það sjálfur.

Sarri tekur það fram að hann vill helst að Eden Hazard spili áfram með Chelsea en að félagið muni ekki standa í vegi fyrir leikmanninum vilji hann komast til annars félags. Það félag þarf reyndar að borga vel fyrir hann en það er önnur saga.

Eden Hazard hefur verið stanslaust orðaður við Real Madrid og hann hefur sjálfur lýst yfir áhuga á að fara til Madrídar.

Chelsea er að reyna að endurnýja samning sinn við Hazard sem rennur út sumarið 2020. Takist það ekki getur Belginn farið frítt eftir aðeins eitt og hálft ár.





Sarri vill aftur á móti alls ekki missa hinn unga Callum Hudson-Odoi frá félaginu en þýska stórliðið Bayern München vill fá þennan efnilega leikmann.

„Staðan er önnur hjá Eden. Hann er orðinn 28 ára gamall og ef hann vill fara þá held ég að hann eigi að fara,“ sagði Maurizio Sarri.

„Auðvitað vonast ég til að hann vilji vera hér hjá okkur,“ sagði Sarri.

Eden Hazard kom til Chelsea árið 2012 og hefur spilað lykilhlutverk í tveimur meistaratitlum og bikartitlinum á síðasta ári. Hann er með 10 mörk og 10 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×