Markalaust í meiðslahrjáðum stórveldaslag á Old Trafford

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Álag á Norðmanninum í fyrri hálfleik
Álag á Norðmanninum í fyrri hálfleik
Manchester United fékk Liverpool í heimsókn í stórleik dagsins í enska boltanum á Old Trafford í dag í leik sem var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið. 

Fyrri hálfleikur náði þó engu flugi og má líklega kenna ótrúlegu magni meiðsla um. Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd, þurfti að gera þrjár skiptingar í fyrri hálfleik þar sem þeir Juan Mata, Ander Herrera og Jesse Lingard fóru allir meiddir af velli.

Jurgen Klopp þurfti einnig að gera eina skiptingu vegna meiðsla Roberto Firmino eftir um hálftíma leik en þar fyrir utan haltraði Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United í gegnum allan leikinn.

Man Utd fékk reyndar besta færi leiksins á 40.mínútu en það var Jesse Lingard sem fékk það eftir frábæra sendingu Romelu Lukaku. Lingard fór hins vegar illa að ráði sínu í algjöru dauðafæri og fór í kjölfarið meiddur af velli en hann hafði skömmu áður komið inná sem varamaður fyrir Juan Mata.

Í síðari hálfleik var enn minna að frétta þar sem heimamenn lágu til baka og Liverpool náði ekki að ógna marki þeirra að neinu viti. 

Joel Matip skoraði sjálfsmark skömmu fyrir leikslok en Chris Smalling var rangstæður í aðdraganda marksins og markið því réttilega dæmt af.

Fór að lokum svo að ekkert mark var skorað. Jafnteflið færir Liverpool toppsæti deildarinnar en á sama tíma misstu Manchester United fjórða sætið í hendurnar á Arsenal.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira