Lífið

Hjúkrunarfræðingar grétu af hlátri vegna Birgittubrandara Ara Eldjárns

Jakob Bjarnar skrifar
Hjúkrunarfræðingunum þótti Birgittu-brandari Ára alveg ljómandi fyndinn og skemmtilegur.
Hjúkrunarfræðingunum þótti Birgittu-brandari Ára alveg ljómandi fyndinn og skemmtilegur.
Ari Eldjárn, hinn dáði grínisti, fór á kostum á afmælisfagnaði hjúkrunarfræðinga þar sem hann meðal annars beindi spjótum sínum að Birgittu Haukdal og féll það í afar góðan jarðveg, svo góðan að segja má að salurinn hafi grátið af hlátri.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnaði 100 ára afmæli sínu, félagið var stofnað árið 1919 og er þannig með elstu félögum landsins. Boðað var til dýrðlegs fagnaðar á Nordica hótel og komust færri að en vildu. Dagskráin var glæsileg; Ari Bragi Kárason trompetleikari blés samkomuna inn, Björg Þórhallsdóttir hjúkrunarfræðingur og söngkona kom fram við undirleik Hilmars Arnar Agnarssonar. Guðbjörg Pálsdóttir formaður Fíh, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir ávörpuðu samkomuna, Björg Þórhallsdóttir og kór hjúkrunarfræðinga sungu en kórstjóri er Hilmar Örn Agnarsson.

Það var svo Ari Eldjárn sem sá um gleðina og grínið. Og hann vissi á hvaða hnappa átti að ýta.

Klippa: Ari Eldjárn skemmtir hjúkrunarfræðingum
Ari brást ekki frekar en fyrri daginn, hann gerði sér meðal annars mat úr Klausturmálinu og venti þá óvænt kvæði sínu í kross og blandaði hinni umdeildu bók Birgittu Haukdal, Lára fer til læknis, í málið. Og þá í fornminjalegu samhengi. Salurinn sprakk en ekki ætti að þurfa að hafa mörg orð um það mál sem Ari vísar til, sem upp kom í haust en hjúkrunarfræðingar gagnrýndu mjög þá mynd af hjúkrunarfræðingum sem dregin var upp í þeirri bók. Birgittu fannst hún ekki eiga þá gagnrýni skilið, eða árásir eins og hún orðaði það, en þó var orðalagi breytt í bókinni í annarri prentun. Eins og Ari kemur inná:

„Talin vera eitt af lykilverkum íslenskrar bókmenntasögu á 21. öldinni. Tvær mismunandi útgáfur hafa varðveist, merkilegt nokk, þar sem orðalagi hefur verið breytt. Annars er lítið vitað um höfundinn en fundist hafa plastlíkneski af henni í Góða hirðinum, við uppgröft þar.“

Ari bætti því við að ef einhvers staðar væri staður og stund fyrir þennan brandara, þá væri það við þetta tiltekna tækifæri.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×